FréttirSkrá á póstlista

04.03.2015

Mottumarsi ýtt úr vör um borð í Helgu Maríu AK

Hinu árlega átaki Krabbameinsfélags Íslands, Mottumarsi, var formlega ýtt úr vör á mánudag með athöfn sem fram fór um borð í ísfisktogaranum Helgu Maríu AK í Reykjavíkurhöfn. Af því tilefni afhjúpuðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), mynd af myndarlegu yfirvararskeggi sem komið hefur verið fyrir framan á brú Helgu Maríu.


Að sögn Ólafar Maríu Jóhannsdóttur, markaðsstjóra Krabbameinsfélagsins, var í síðasta mánuði gengið frá samkomulagi við SFS um að samtökin verði helstu styrktaraðilar verkefnisins ,,Mottumars – karlar og krabbamein“ næstu þrjú árin og var samningur þess efnis undirritaður í Saltfisksetrinu í Grindavík við það tækifæri.


,,Það skiptir Krabbameinsfélagið miklu máli að hafa svo öflugan styrktaraðila sem SFS og með þessu samkomulagi er tryggður fjárhagsgrundvöllur fyrir þetta mikilvæga verkefni næstu þrjú árin,“ segir Ólöf María en að hennar sögn tókst athöfnin um borð í Helgu Maríu einstaklega vel. Jakob Jóhannsson formaður stjórnar Krabbameinsfélags Íslands ávarpaði gesti og sagði frá því að í ár er sérstök áhersla lögð á umræðu og fræðslu um leit að ristilkrabbameini og er slagorð átaksins „Hugsaðu um eigin rass“.

,,Við fengum rakara frá Barber Company til að raka þrjá herramenn sem létu alskeggið fjúka og héldu bara yfirvararskegginu eða mottunni. Það voru þeir Jens Garðar og Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS, sem  settust í rakarastólinn auk Sigurgeirs Freys Pálmasonar, skipverja á Helgu Maríu,“ segir Ólöf María Jóhannsdóttir.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir