FréttirSkrá á póstlista

28.02.2015

Hvassar vestan- og suðvestanáttir ríkjandi frá áramótum

,,Það hefði mátt blása þeim ófögnuði í burt fyrir löngu enda hafa þessar vindáttir verið svo þrálátar í lengri tíma að sjórinn hefur aldrei náð að sléttast í því hvassviðri sem þeim hefur fylgt.“ 

Þetta sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, í samtali við tíðindamann heimasíðu HB Granda fyrir nokkru en ,,ófögnuðurinn“, sem skipstjórinn vísar til, eru vestan- og suðvestanáttirnar sem gert hafa flestum landsmönnum lífið leitt í vetur. Sjómenn eiga flestum meira undir þegar veðráttan er annars vegar og það má vera býsna slæmt veður og erfitt tíðarfar til að þeir kvarti. En svo má brýna deigt járn að það bíti og Arnþór og félagar hans í sjómannastétt eru fyrir löngu orðnir dauðþreyttir á þeim þrálátu brælum sem segja má að hafi verið svo að segja daglegt brauð á flestum fiskimiðum umhverfis landið í vetur.

Heimasíða HB Granda fékk Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing hjá Veðurvaktinni ehf., af þessu tilefni til að rýna í veðrið nú í upphafi ársins og bera það saman við veðráttuna á sama árstíma undanfarin ár. Einar segist hafa valið þann kostinn að horfa til vindhraða og vindátta og við samanburðinn hafi hann stuðst við veðurupplýsingar frá Garðskaga frá upphafi mælinga þar árið 1995 og fram til 18. febrúar sl. Sá staður sé á berangri úti við sjó og hafi því ekkert skjól af fjöllum í ákveðnum vindáttum.

,,Ég tók reyndar saman upplýsingar um veðurlagið allt frá því í byrjun desember sl. en nokkrir hægviðrasamir dagar í kringum jólin valda því að desembermánuður sker sig ekkert sérstaklega úr hvað varðar tíðarfarið. Öðru máli gegnir um tímabilið 1. janúar til 18. febrúar. Niðurstaðan er sú að þessir tæplega 50 fyrstu dagar ársins eru þeir vindasömustu frá árinu 1995 með meðalvindhraða upp á meira en 10 m/sek. Þetta er mikill meðalvindhraði og aðeins sama tímabil 2008 kemst nálægt því frá árinu 1995,“ segir Einar en hann segist hafa einnig skilgreint þröskuldsgildi (kosið að miða við 8 m/sek) í samanburði sínum. Ef vindur er meiri en 8 m/sek þá sé vindasamt en ,,góðir“ dagar falli í þann flokk að vera undir því gildi.

,,Við samanburðinn kemur í ljós að vindasamir dagar eru 78% af heildinni, miðað við framangreinda skilgreiningu, en meðaltalið fyrir umrætt tímabil er 55-60%. Það, sem þó sker sig úr, er tíðni vestan- og suðvestanátta. Tíðni þeirra vindátta er nú 55% sem er mun meira en í meðalári. Það er oft rætt um að veturinn 2000 hafi einkennst af þrálátum vestan- og suðvestanáttum en munurinn er sá að vindurinn þá var  markvert hægari en nú, enn og aftur miðað við Garðaskaga.“

Að sögn Einars hefur það einkennt veðráttuna frá áramótum að lítið hlé hefur verið á milli lægða. Þær eru að auki fremur hraðskreiðar og krappar með tilheyrandi snúningum og umhleypingum.  Þeir dagar, þar sem vindhraði hafi verið undir 8 m/sek, séu ekki margir. Aðeins nokkrir dagar, 20. janúar, 28. janúar, 31. janúar til 1. febrúar, 3. febrúar og 13. febrúar falli undir þá skilgreiningu sem og 10. janúar sem sker sig úr sem eiginlega eini hægláti sólarhringurinn til þessa frá áramótum. 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir