FréttirSkrá á póstlista

25.02.2015

Loðnuhrognafrysting hafin á Akranesi

,,Við byrjuðum á að frysta loðnuhrogn úr farmi Faxa RE í gærmorgun. Þroski hrognanna er reyndar ekki eins og best verður á kosið en það skiptir okkur máli að vera komnir í gang með vinnsluna þegar hrognaþroskinn er orðinn hæfilegur. Það gæti orðið í dag eða á morgun,“ segir Gunnar Hermannsson verkstjóri í loðnuhrognavinnslu HB Granda á Akranesi.


Í fyrra hófst hrognaskurður og –frysting á Akranesi 21. febrúar þannig að nokkrum dögum munar á milli ára. Gunnar segir það þó lítið segja til um framhaldið.

,,Við vorum bjartsýn á framhaldið þegar við fengum vestangöngu loðnu í fyrra og þá vantaði nægilega hrognafyllingu, hvað þá þroska hrognanna, til að hún hentaði til hrognatöku. Við áttum því von á að veiðin héldist lengur fram eftir marsmánuði en eins og margir muna þá datt botninn fljótlega úr veiðunum eins og hendi væri veifað.“

Gunnar hefur líkt og venjulega áhyggjur af því að tíðarfarið setji strik í reikninginn varðandi veiðarnar á hrognatökutímanum.

,,Útlitið er ekki gott í dag en þeir eru ótrúlega segir þessir karlar á skipunum. Við áttum ekki von á því að fá loðnu til hrognatöku í gærmorgun en sú loðna, sem Faxi kom með, veiddist í skjóli við Vestmannaeyjar. Ingunn AK er nú í höfn með stóra og fallega loðnu. Hrognafyllingin er komin í 23,5% og hver veit nema að hrognaþroskinn sé búinn að ná 100% gæðum. Við komumst að því í dag,“ segir Gunnar Hermannsson.

Um 100 manns starfa við hrognaskurð og –frystingu hjá HB Granda á Akranesi á meðan vertíðinni stendur. Uppistaðan er starfsfólk úr fiskiðjuveri félagsins á staðnum en þeir heimamenn og nærsveitamenn, sem tekið hafa þátt í hrognavertíðum undanfarinna ára, standa sömuleiðis vaktina. Ef allt gengur að óskum gæti vertíðin staðið í allt að þrjár vikur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir