FréttirSkrá á póstlista

25.02.2015

Afkoma HB Granda hf. árið 2014

Fjórði ársfjórðungur
Rekstrartekjur samstæðunnar á fjórða ársfjórðungi 2014 voru 59,3 m€, á móti 45,0 m€ á fjórða ársfjórðungi 2013.
EBITDA nam 4,9 m€ á fjórða ársfjórðungi í ár, en nam 6,1 m€ á sama tímabili 2013.
Hagnaður á fjórða ársfjórðungi var 5,8 m€ samanborið við 9,5 m€ árið áður.

Árið 2014
Rekstrartekjur ársins 2014 námu 214,9 m€, en voru 195,0 m€ árið 2013.
EBITDA ársins 2014 var 49,9 m€ (23,2%) en var 45,1 m€ (23,1%) árið áður.
Hagnaður ársins var 36,3 m€, en var 35,4 m€ árið áður.

Rekstur ársins 2014
Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2014 námu 214,9 m€, samanborið við 195,0 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og virðisrýrnun (EBITDA) var 49,9 m€ eða 23,2% af rekstrartekjum, en var 45,1 m€ eða 23,1% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 4,4 m€, en voru jákvæð um 1,4 m€ árið áður. Meðal fjáreignatekna er tekjufærður söluhagnaður og matsbreyting eignarhluta í dótturfélagi að fjárhæð 5,8 m€. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 2,9 m€, en voru jákvæð um 0,8 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 43,8 m€, samanborið við hagnað að fjárhæð 43,8 m€ árið áður. Tekjuskattur að fjárhæð 7,5 m€ er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum. Hagnaður ársins varð því 36,3 m€ en var 35,4 m€ árið áður.
Meðalfjöldi ársverka árið 2014 var 920 en var 828 árið 2013. Laun og launatengd gjöld námu samtals 62,6 m€, samanborið við 58,3 m€ árið áður (9,7 milljarðar króna á meðalgengi ársins samanborið við 9,4 milljarða árið áður).
Á árinu 2014 keypti félagið allt hlutafé í Norðanfiski ehf. og er félagið hluti af samstæðureikningi HB Granda hf. frá 22. maí 2014. Í árslok seldi félagið síðan eignarhlut sinn í Stofnfiski hf., en félagið er hluti af rekstrarreikningi samstæðunnar allt árið 2014.

Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 366,7 m€ í árslok 2014. Þar af voru fastafjármunir 284,3 m€ og veltufjármunir 82,4 m€. Eigið fé nam 218,8 m€ og var eiginfjárhlutfall 60%, en var 61% í lok árs 2013. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 147,9 m€.

Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 34,0 m€ árið 2014, en var 43,1 m€ árið áður. Fjárfestingar námu 33,4 m€. Fjármögnunarhreyfingar námu 11,9 m€. Handbært fé hækkaði því um 12,5 m€ og var í árslok 24,7 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2014 (1 evra = 154,43 isk) verða tekjur 33,2 milljarðar króna, EBITDA 7,7 milljarðar og hagnaður 5,6 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2014 (1 evra = 153,84 isk) verða eignir samtals 56,4 milljarðar króna, skuldir 22,7 milljarðar og eigið fé 33,7 milljarðar.

Skipastóll og afli
HB Grandi hf. gerði út 10 fiskiskip í árslok. Á árinu var samið við skipasmíðastöð í Tyrklandi um smíði á þremur nýjum ísfisktogurum. Árið 2013 var samið við sömu skipasmíðastöð um smíði tveggja uppsjávarveiðiskipa. Fyrra uppsjávarskipið verður afhent í apríl næstkomandi en það seinna í árslok. Fyrsti ísfisktogarinn verður væntanlega afhentur upp úr miðju ári 2016.
Árið 2014 var afli skipa félagsins 50 þúsund tonn af botnfiski og 103 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Önnur mál
Í febrúar 2015 var gengið frá samningi um endurfjármögnun á skuldum samstæðunnar. Samningurinn felur í sér 77,0 m€ lán með lokagjalddaga 2020.
Slæmt veðurfar og breytt göngumynstur loðnu hafa sett svip sinn á fyrri helming loðnuvertíðar. Aflamark félagsins í loðnu er nú 72.600 tonn á móti 23.400 tonnum í fyrra. Verði bærileg veiði það sem eftir er vertíðar á aflamarkið að nást.

Aðalfundur
Aðalfundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 10. apríl í matsal félagsins við Norðurgarð í Reykjavík og hefst klukkan 17:00.
Tillaga stjórnar á aðalfundi um arðgreiðslu
Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2015 verði vegna rekstrarársins 2014 greidd 1,50 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 2.720 millj. kr. (um 17,7 millj. evra á lokagengi ársins 2014), sem samsvarar 8,1% af eigin fé eða 4,4% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2014. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2015. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 10. apríl 2015 og arðleysisdagur því 13. apríl 2015.
Arðsréttindadagur er 14. apríl 2015 (arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá að loknu uppgjöri Verðbréfaskráningar Íslands fyrir kl. 12:00 þann 14. apríl 2015).

Kynningarfundur þann 25. febrúar 2015
Opinn kynningarfundur um afkomu félagsins á fjórða ársfjórðungi verður haldinn í dag miðvikudaginn 25. febrúar klukkan 16:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1. Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

Samþykkt ársreiknings
Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi HB Granda hf. 25. febrúar 2015. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri, sími 858-1007.

Fjárhagsdagatal
Aðalfundur/Birting ársskýrslu 10. apríl 2015
Arðgreiðsludagur 30. apríl 2015
Fyrsti ársfjórðungur 27. maí 2015
Annar ársfjórðungur 26. ágúst 2015
Þriðji ársfjórðungur 25. nóvember 2015
Fjórði ársfjórðungur 24. febrúar 2016

Ársreikningur HB Granda 2014

Afkoma HB Granda hf 2014 - fréttatilkynning

Nýjustu fréttir

Allar fréttir