FréttirSkrá á póstlista

24.02.2015

Lánsfjármögnun tveggja uppsjávarskipa lokið

HB Grandi hefur áður upplýst um samninga sem gerðir voru við tyrknesku skipasmíðastöðina Celiktrans Deniz Insaat Ltd. um smíði tveggja uppsjávarskipa sem áætlað er að verði afhent á árinu 2015. Fyrra skipið mun leysa af hólmi tvö 55 ára gömul uppsjávarskip, Víking AK 100 sem þegar hefur verið lagt og Lundey NS 14. Munu hin nýju skip bera heitin Venus NS 150 og Víkingur AK 100. Að kaupunum loknum lækkar meðalaldur skipastóls félagsins úr 33 árum í 23.

Félagið hefur nú gengið frá lánsfjármögnun skipanna ásamt endurfjármögnun á eldri langtímalánum við Arion banka hf. og DNB Bank ASA. Fjármögnunin er alls að fjárhæð EUR 77.000.000 sem dregið verður á í þremur hlutum og mun lánstími hvers ádráttar vera 5 ár. Gert er ráð fyrir að ádráttur lánsins og afborganir hvers lánshluta verði með eftirfarandi hætti:

- Fyrsti ádráttur að fjárhæð EUR 32.000.000 mun eiga sér stað í mars 2015. Lánshlutinn verður endurgreiddur með 18 ársfjórðungslegum afborgunum að fjárhæð EUR 533.334 hver, auk lokagreiðslu að 5 árum liðnum að fjárhæð EUR 22.399.988.

- Annar ádráttur að fjárhæð EUR 22.500.000 mun eiga sér stað samhliða afhendingu fyrra skipsins, í apríl/maí 2015. Lánshlutinn verður endurgreiddur með 9 afborgunum á 6 mánaða fresti að fjárhæð EUR 750.000 hver, auk lokagreiðslu að 5 árum liðnum að fjárhæð EUR 15.750.000.

- Þriðji ádráttur að fjárhæð EUR 22.500.000 mun eiga sér stað samhliða afhendingu seinna skipsins, í lok árs 2015. Lánshlutinn verður endurgreiddur með 9 afborgunum á 6 mánaða fresti að fjárhæð EUR 750.000 hver, auk lokagreiðslu að 5 árum liðnum að fjárhæð EUR 15.750.000.

Lánssamningurinn ber breytilega vexti og eru núgildandi meðalvextir 2,8%.

Framangreindar dagsetningar geta riðlast ef dráttur verður á afhendingu skipanna. Mun hluta lánsins verða varið til endurfjármögnunar skammtímaskulda vegna áfallinna greiðslna í tengslum við smíðina. Nánari upplýsingar veitir: Jónas Guðbjörnsson fjármálastjóri, s. 858 1031.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir