FréttirSkrá á póstlista

19.02.2015

Gæðamálin í mjög góðu lagi

,, Við erum að hækka í einkunn á öllum stöðum og getum verið mjög sátt við stöðu gæðamála í framleiðslunni.“

Þetta segir Erlendur Stefánsson, gæðastjóri HB Granda, en tilefnið er að niðurstöður úttektar á gæðakerfum í IFS vottuðum fiskiðjuverum félagsins í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði og hjá Vigni G. Jónssyni á Akranesi, liggja nú fyrir. Þetta er í fyrsta sinn sem allar starfstöðvarnar eru teknar út á sama tíma. Samkvæmt úttektinni skora allar framangreindar starfsstöðvar það hátt í úttektinni að þær teljast til hærra þreps, svokallað ,,Higher level,“ sem er mjög gott.

,,Sá, sem tók gæðakerfin út, var tvo vinnudaga á hverri starfsstöð. Í úttektunum er farið ítarlega yfir gæðakerfin. Vinnsluhúsnæðið er skoðað og svo er starfsfólk spurt út í þau atriði sem það sinnir og eru nauðsynleg gæðum vörunnar. Starfsfólk þarf að geta sýnt fram á getu til að sinna sínu starfi og þekkingu á þeim hluta gæðakerfisins sem að þeim snýr. Framkvæmd eru rekjanleikapróf til að ganga úr skugga um að rekjanleiki sé tryggður í gegnum öll skref vinnslunnar. Með því að uppfylla þær kröfur sem IFS staðallinn gerir til gæðakerfanna erum við að tryggja að við erum mjög framarlega í allri þróun sem á sér stað varðandi gæðakröfur í nútíma matvælaframleiðslu,“ segir Erlendur en að hans sögn stóð starfsfólkið sig mjög vel og leysti úr þeim málum sem komu upp. 

Þess má að lokum geta að úttektarmaðurinn tók saman lista yfir þau atriði sem lagfæra þarf á hverjum stað. Erlendur segir að sú vinna sé þegar hafin. 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir