FréttirSkrá á póstlista

19.02.2015

Aflahlutdeild mælist hærri vegna verðbreytinga: Heildar veiðiheimildir HB Granda hafa ekkert breyst

Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Fiskistofu reiknast aflahlutdeild HB Granda nú rétt yfir 12% samanlagðs heildarverðmætis aflalhutdeilda allra tegunda. Vegna þessa þykir stjórnendum félagsins rétt að taka fram að engar breytingar hafa átt sér stað á aflahlutdeildum HB Granda undanfarin ár. Þrátt fyrir það hefur aflahlutdeild félagsins samkvæmt þessum ákveðna útreikningi hækkað úr 9,65% árið 2009 og mælist nú um stundir 12,2%. Ástæðan fyrir þessum breytingum á hlutdeildinni eru verðsveiflur á alþjóðlegum mörkuðum fyrir afurðir fyrirtækisins.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda segir: „Fiskistofa hefur gefið út þorskígildisstöðu útgerðarfélaga tvisvar á ári. Við höfum ekki bætt við okkar hlutdeild en nú reiknast hún tímabundið 12,2%. Það sem veldur þessum breytingum er aðallega hærri þorskígildisstuðull karfa. Við eigum von á því að hlutdeildin fari vel niður fyrir 12% við næsta útreikning Fiskistofu. Sem dæmi um hversu mikil áhrif verðsveiflur geta haft á niðurstöðuna þá má nefna að þorskígildi gullkarfa var 0,42 fiskveiðiárið 2008/2009 en er 0,85 á yfirstandandi fiskveiðiári. Allt bendir til að þorskígildi gullkarfa lækki aftur við næsta útreikning, en karfi er stór hluti af okkar aflaheimildum, og að hlutdeild félagsins fari þá aftur undir þessi lögbundnu mörk.“

Nýjustu fréttir

Allar fréttir