FréttirSkrá á póstlista

18.02.2015

Mjög stór loðna veiðist fyrir austan

,,Maður verður að vona það besta. Loðnan er a.m.k. farin að skila sér upp á grunnin fyrir austan eða á þá staði sem við væntum hennar mun fyrr. Miðað við aflabrögðin við Stokksnes og suður af Hornafirði síðustu dagana er freistandi að ætla að loðnuvertíðin sé hafin fyrir alvöru. Það er margt, sem komið hefur okkur á óvart í vetur, og það á ekki síst við um stærðina á loðnunni fyrir austan. Það munar ekki miklu að hún sé að jafnaði helmingi stærri en sú sem veiddist fyrir norðan landið.“

Þetta sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann um hádegisbilið en Lundey var þá stödd út af Austfjörðum á leiðinni á loðnumiðin út af Hornafirði. Þetta er önnur veiðiferð Lundeyjar á grunnslóðina við Suð-Austurland en skipverjar fengu ágætan afla þar sl. mánudag eða um 1.000 til 1.100 tonn sem fóru til frystingar á Vopnafirði.

,,Það er þó nokkuð síðan við tókum grunnnótina um borð og það reyndist okkur vel út af Stokksnesinu. Það var dálítið að sjá af loðnu á leiðinni suður með Austfjörðum en við köstuðum ekki fyrr en komið var suður undir Stokksnes. Loðnan veiðist nú allt vestur undir Hornafjörð og ég veit til þess að Ingunn AK fékk þar góðan afla í gær. Það var hins vegar hálfgerð bræla í nótt og lítil veiði en maður bindur vonir við norðan- og norðvestanáttina sem nú er í kortunum. Það eru þær vindáttir sem við þurfum í fjörunum fyrir sunnan landið,“ segir Arnþór en hann líkt og fleiri er orðinn dauðleiður á suðvestan- og vestanáttinni sem verið hefur ríkjandi á miðunum undanfarnar vikur.

,,Það hefði mátt blása þeim ófögnuði í burt fyrir löngu enda hafa þessar vindáttir verið svo þrálátar í lengri tíma að sjórinn hefur aldrei náð að sléttast í því hvassviðri sem þeim hefur fylgt,“ segir Arnþór.

Sem fyrr segir hefur loðnan verið óvenju stór og góð á grunnslóðinni fyrir austan og Arnþór segir að í síðustu talningu hafi 36-38 stykki verið í kílóinu. Hrognafyllingin er sömuleiðis á uppleið og Arnþór hafði í dag þær fréttir nýjastar frá frystiskipunum að hrognafyllingin væri 14-16%. Betur má ef duga skal en væntanlega hefst hrognataka ekki fyrr en talan nær 20% og hrognaþroskinn telst vera orðinn viðunandi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir