FréttirSkrá á póstlista

15.02.2015

Ekkert eðlilegt en þó...

Ingunn AK kom til heimahafnar á Akranesi um hádegisbilið í dag með rúmlega 1.900 tonn af loðnu. Aflinn fékkst í sjö köstum með djúpnót á Skagagrunni og út af Húnaflóa eða á sömu slóðum og mestur loðnuafli hefur fengist undanfarna daga. Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni, segir ekkert vera eðlilegt við loðnuvertíðina en hann er þó bjartsýnn á að úr rætist.

,,Það, sem upp úr stendur á þessari loðnuvertíð, er tíðarfarið. Það hefur verið hreint út sagt skelfilegt. Menn höfðu áhyggjur af því að loðnugangan hefði stöðvast fyrir norðan land og að loðnan gengi ekki sína venjulegu slóð fyrir Austfirði og síðan vestur með suðurströndinni og inn á Faxaflóa og Breiðafjörð. Sem betur fer þá bendir margt til þess að svo sé ekki,“ segir Guðlaugur og bætir við.

,,Það hefur orðið vart við loðnu út af Austfjörðum og þar eru ein fimm eða sex skip sem hafa fengið afla. Það er reyndar haugabræla á miðunum núna og skipin hafa þurft að leita hafnar. Ég er hins vegar bjartsýnn á framhaldið,“ segir Guðlaugur en til marks um þá trú, sem hann hefur á framhaldi loðnuvertíðarinnar, má nefna að í fyrramálið, þegar Ingunn fer til veiða, verður grunnnótin um borð. Það veit á loðnuveiðar á grunnslóðinni fyrir sunnan land á næstunni.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir