FréttirSkrá á póstlista

11.02.2015

Það stefnir í góða loðnuvertíð á Akranesi

Lundey NS kom til hafnar á Akranesi í gærmorgun með fullfermi af loðnu eða um 1.500 tonn. Þetta er í annað skiptið á vertíðinni sem landað er úr Lundey á Akranesi og verksmiðjustjórinn, Guðmundur Hannesson, segir að það stefni í ágæta loðnuvertíð.

,,Í fyrra var verksmiðjan ekki gangsett fyrr en hrognataka hófst í lok febrúar en núna erum við búnir að taka á móti 3.000 tonnum og útlit er fyrir að það verði framhald á út vertíðina,“ segir Guðmundur en þess má geta að verksmiðjan á Akranesi er þannig útbúin að hægt er að keyra á tveimur vinnslukerfum samtímis. Afköstin þá eru um 850 til 900 tonn af loðnu á sólarhring. Nú er verksmiðjan aðeins rekin á stærra kerfinu og því ætti farmur Lundeyjar að duga verksmiðjunni í þrjá sólarhringa.

,,Við ættum að ljúka við að landa úr skipinu í kvöld og þá hefst vinnslan,“ segir Guðmundur Hannesson en þess má geta að alls starfa 12 manns við verksmiðjuna og eru sex á vakt í einu.

Miðað við tillögu Hafrannsóknastofnunar og ákvörðun sjávarútvegsráðherra um loðnukvótann koma alls 71.652 tonn í hlut HB Granda á vertíðinni. Með afla Lundeyjar er heildaraflinn kominn í um 21.000 tonn og því eru óveidd rúmlega 50.000 tonn. Til að tryggja að kvótinn verði nýttur sem best hefur HB Grandi samið við útgerð Hoffells II SU um að skipið muni veiða af úthlutuðum loðnukvóta HB Granda. Fjögur skip munu því sjá um veiðarnar til loka vertíðarinnar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir