FréttirSkrá á póstlista

11.02.2015

Áhöfnin á Örfirisey fær viðurkenningu frá Rauða krossinum

Áhöfninni á frystitogaranum Örfirisey RE var í gær veitt viðurkenning Rauða kross Íslands fyrir einstakt björgunarafrek sem unnið var um borð í skipinu 5. desember sl. Skipverjar björguðu þá lífi Kristjáns Víðis Kristjánssonar, fyrsta stýrimanns, sem fór í hjartastopp, með því að beita hefðbundinni skyndihjálp og hjartastuðtæki til að vekja Kristján Víði til lífsins.

Í dag er hinn svokallaði 112-dagur en af því tilefni veitir Rauði krossinn viðurkenningu þeim aðilum, sem þótt hafa skarað fram úr í skyndihjálp í árinu á undan. Að þessu sinni voru veittar fjórar viðurkenningar en úr þeim hópi er síðan valinn ,,skyndihjálparmaður ársins.“

,,Við tókum forskot á sæluna í gær með því að veita áhöfninni á Örfirisey sína viðurkenningu, enda átti skipið að fara til veiða í gærkvöld,“ segir Jón Þorsteinn Sigurðsson, formaður Rauða krossdeildarinnar í Reykjavík, í samtali við heimasíðu HB Granda
.
Að sögn Jóns Þorsteins var áhugavert að heyra það á skipverjum hve atburðurinn 5. desember sl. er þeim í fersku minni.

,,Að mínu mati eru þessir menn hetjur í lifanda lífi. Þeir drýgðu einstaka hetjudáð með því að halda Kristjáni Víði lifandi í þrjá tíma áður en sérhæft björgunarfólk og læknar tóku við honum,“ sagði Jón Þorsteinn Sigurðsson.

Trausta Egilssyni, skipstjóra á Örfirisey, þótti að vonum vænt um viðurkenninguna en við náðum tali af honum nú um miðjan dag. Þá var skipið komið á Vestfjarðamið en vart sá út úr augum vegna hríðarbyls.

,,Við sækjum reglulega námskeið í skyndihjálp og sú þekking og fumlaus viðbrögð skipverja björguðu lífi Kristjáns Víðis. Fyrir það erum við fyrst og fremst þakklátir,“ sagði Trausti Egilsson.

Nú síðdegis voru síðan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og aðrir leikmenn meistaraflokks kvenna hjá Val í fyrra, útnefnd ,,Skyndihjálparmaður ársins 2014.“ Viðurkenninguna fengu þær fyrir að bjarga lífi Guðmundar Helga Magnússonar í íþróttahöll Vals á Hlíðarenda.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir