FréttirSkrá á póstlista

08.02.2015

Ótíð allan tímann en 830 tonn upp úr sjó

,,Það er búið að vera leiðindaveður allan tímann og ekki síst núna á heimsiglingunni. Við fórum ekki varhluta af storminum, sem Norðmenn nefndu Ole, því hér voru 40 m/s í eina fjóra tíma í gær en síðan þegar vindurinn gekk niður í 20-25 m/s þá fór ölduhæðin fyrst að vaxa. Nú stefnum við beint upp í vindinn í stað þess að fara beinustu leið.“

Þetta sagði Ægir Franzson á Þerney RE er tíðindamaður heimasíðu HB Granda náði tali af honum í kvöld en Þerney var þá á leið heim til Reykjavíkur úr Barentshafi í norsku lögsögunni. Reiknað er með því að skipið komi til hafnar nk. miðvikudag og aflinn í veiðiferðinni, 40 dagar höfn í höfn, er um 830 tonn af fiski upp úr sjó.

Að sögn Ægis hefur þrálát ótíð einkennt veiðiferðina en oftast hafa verið stillur og þokkalegasta veður í Barentshafi á þessum árstíma.

,,Veiðin var þokkaleg, sæmilegasta kropp, en maður heyrði það frá norskum og færeyskum skipstjórum á veiðislóðinni að þeir voru ekki vanir þessari veðráttu í norskri lögsögu í Barentshafi á þessum árstíma. Við vorum mest að veiðum á Fuglabanka og svo austur með línunni út af Nord Kapp. Auk Norðmanna og Færeyinga voru margir rússneskir togarar að veiðum á svipuðum slóðum,“ sagði Ægir Franzson.

Líkt og búast mátti við er þorskur uppistaðan í afla Þerneyjar en þó var ýsuaflinn tæplega 200 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir