FréttirSkrá á póstlista

03.02.2015

Fyrsta loðnan til Akraness á vertíðinni

Von var á Lundey NS til Akraness með fullfermi af loðnu um kl. 14 í dag og verður þetta fyrsta loðnan sem landað er á Akranesi á vertíðinni. Loðnan fékkst í gær í þremur köstum á austanverðu Skagagrunni.

Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar skipstjóra stóð ekki til að landa á Akranesi að sinni. Vegna bilunar í milliblökk var hins vegar ákveðið að sigla suður til að ná í varahlut og gert verður við bilunina á Akranesi.

,,Það bilaði reyndar tvisvar hjá okkur í túrnum og fyrst var reynt að sjóða stykkið saman á Akureyri. Það dugði þó skammt. Okkur tókst þó að bjarga veiðiferðinni með því að fá um 1.500 tonn af loðnu í þremur köstum utarlega á Skagagrunninu. Þar var mikið líf á stóru svæði og greinilega töluvert af loðnu á ferðinni. Hins vegar var erfitt að átta sig á því á hvaða leið þessi loðna var en við urðum einnig varir við loðnu vestar á siglingunni til Akraness,“ segir Arnþór. Að hans sögn stóð loðnan nokkuð djúpt yfir daginn en hún kom upp undir yfirborðið eftir að skyggja tók.

Nokkur skip voru að veiðum á svipuðum slóðum og Lundey í gærkvöldi en Arnþór segir að þau hafi öll verið farin í morgun og hafi því örugglega fengið góðan afla.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir