FréttirSkrá á póstlista

29.01.2015

Rúmlega 33 þúsund tonn á fyrsta heila starfsári Ísbjarnarins

Nýliðið ár var fyrsta heila starfsár frystigeymslunnar Ísbjarnarins á Norðurgarði í Reykjavík. Alls fóru rúmlega 33 þúsund tonn af frystum afurðum frá frystitogurum félagsins og fiskiðjuverinu á Norðurgarði um Ísbjörninn á þessum tíma.

,,Frystitogarnir lönduðu hér tæplega 18.100 tonnum. Þar af var Örfirisey RE með 7.544 tonn, Þerney RE með 5.340 tonn og Höfrungur III AK með 5.184 tonn. Magnið, sem við tókum á móti frá Norðurgarði, var um 15.000 tonn,“ segir Reynir Daníelsson, framkvæmdastjóri Landar ehf., sem sér um alla löndunarþjónustu fyrir HB Granda í Reykjavík og á Akranesi.

Að sögn Reynis voru allar afurðir fiskiðjuversins á Norðurgarði fyrir útskipun geymdar í Ísbirninum í fyrra. Því þurfti ekki að senda frystar afurðir í frystigeymsluna Kuldabola í Þorlákshöfn eða í Sundafrost í Sundahöfn, líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Þá var sömuleiðis mikið hagræði fólgið í því að tæpum 4.300 tonnum af frystum fiski frá frystitogurunum var skipað út beint frá Ísbirninum um borð í flutningaskip í Reykjavíkurhöfn. Það magn samsvarar 182 fullum gámum af afurðum og fyrir vikið fækkaði ferðum stórra flutningabíla um miðborgina um 364 á síðasta ári.

,,Með tilkomu Ísbjarnarins hafa gæði vörunar aukist. Hún stendur minna á gólfi og fer mjög fljótt í frystigáma eða inn í sjálfan frystiklefann,“ segir Reynir Daníelsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir