FréttirSkrá á póstlista

28.01.2015

Loðnan virðist ganga grunnt með landinu

,,Við komum á nótableyðuna hér úti af Melrakkasléttu í gærmorgun en loðnan hefur ekki gefið sig til. Það er s.s. nóg að sjá en þetta eru litlir blettir og loðnan virðist ganga dreift og grunnt með landinu. Það er sama staða og á vertíðinni í fyrra og ólíkt því sem við höfum átt að venjast á undanförnum árum.“

Þetta sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, er við náðum tali af honum en þá var fjöldi skipa við loðnuleit í næsta nágrenni við Ingunni.

,,Þetta er fyrsti túrinn okkar á vertíðini með nót en við lönduðum um 1.000 tonnum af loðnu, sem við fengum í flottroll norður og norðaustur af Langanesi, í fyrrakvöld og í fyrrinótt. Það eru mörg norsk skip á þessum slóðum og þau fengu afla í nót um helgina og svo var eitt íslenskt skip með um 300 tonna hol á mánudag,“ sagði Guðlaugur.

Að sögn Guðlaugs hafa loðnuveiðarnar gengið upp og ofan frá því að vertíðin hófst. Farið hefur verið víða í leit að loðnu eða allt vestur á Kolbeinseyjarsvæðið og austur um að norðanverðum Austfjörðum.

,,Það fékkst þokkalegur afli í síðustu viku en annars hefur þráleit ótíð gert okkur lífið leitt frá því að loðnuveiðarnar hófust. Á miðvikudag og fimmtudag er spáð norðangarði og ég efast um að það verði veiðiveður, þ.e.a.s. ef spáin gengur eftir.“

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú á veiðislóðinni. Lundey NS kom þangað í fyrrakvöld en Faxi RE kom fyrr og var skipið komið með um 300 til 400 tonna afla í gærmorgun.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir