FréttirSkrá á póstlista

21.01.2015

Ottó N. Þorláksson RE aftur til veiða upp úr miðjum febrúar

Vonir standa til að ísfisktogarinn Ottó N. Þorláksson RE komist aftur til veiða upp úr miðjum næsta mánuði. Höfuðlega í aðalvél skipsins gaf sig í lok nóvembermánaðar sl. en sem betur fer kom bilunin í ljós áður en skipið hélt til veiða.
Líkt og menn óttuðust þegar höfuðlegan gaf sig þá urðu einnig skemmdir á sveifarási og öðrum búnaði. Samið var við Stálsmiðjuna – Framtak að sjá um viðgerðina og það kom ekki í ljós fyrr en búið var að taka aðalvélina í sundur hve miklar skemmdirnar voru.
Að sögn Gísla Jónmundssonar, skipaeftirlitsmanns hjá HB Granda, hefur viðgerðinni á aðavélinni og öðrum búnaði miðað vel.
,,Við reiknuðum aldrei með því að verkinu lyki fyrr en komið væri fram í febrúar. Það var reyndar nýbúið að taka aðalvélina upp, áður en höfuðlegan gaf sig, þannig að það var búið að endurnýja stimpilkolla, legur og fleira sem ekki skemmdist,“ segir Gísli en að sögn hans var aðalvélin illa farin eftir bilunina. Hún var því tekin í sundur stykki fyrir stykki og svo sett saman að nýju með ,,nýjum“ botnramma, sveifarási og vélarblokk. 
,,Við fengum notaða vél frá Hollandi og við notuðum vélarblokkina, sveifarásinn og botnramman úr þeirri vél og svona sitt lítið af hverju. Þetta er blokk frá árinu 2005 og annar vélbúnaður er frá 2002. Þetta eru því nánast nýir hlutir ef miðað er við aðalvélina úr Ottó sem er frá 1978 og búið var að keyra frá 1981. Ef það tekst vel að koma þessu heim og saman þá verðum við með miklu betri aðalvél í höndunum. Blokkin í þeirri gömlu var orðin léleg,“ segir Gísli Jónmundsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir