FréttirSkrá á póstlista

19.01.2015

GÓÐ HOL HJÁ LUNDEY NS

Von var á Lundey NS til Vopnafjarðar nú upp úr hádeginu með um 1.000 tonna loðnuafla. Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar skipstjóra hefur verið heldur rólegt yfir veiðunum frá því að þær hófust eftir áramótin. Þó hafi aflinn glæðst um helgina.

,,Við fengum tvö 350 tonna hol um helgina. Í fyrra skiptið toguðum við reyndar lengi en aflinn í seinna holinu fékkst á um fjórum til fimm tímum,“ segir Arnþór en að sögn hans er loðnan af góðri stærð og lítið er um átu í henni.
,,Þetta er mun betra síli en við fengum í veiðiferðinni á undan. Samkvæmt mælingu er meðalstærðin um 45 stykki í kílóinu.“

Er rætt var við Arnþór var Lundey komin í mynni Vopnafjarðar og því stutt sigling eftir til hafnar. Veður var ágætt en búist er við því að það versni til muna þegar líða tekur á daginn og lægðin, sem gert hefur fólki lífið leitt á Suður- og Vesturlandi í nótt og í morgun, gengur austur yfir landið.
Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, er Faxi RE á Vopnafirði og áhöfnin á Ingunni AK, sem var á miðunum, var að ljúka við síðasta hol veiðiferðarinnar nú um hádegisbilið.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir