FréttirSkrá á póstlista

15.01.2015

VEIÐIN FER VEL AF STAÐ Á NÝJU ÁRI

,,Þetta er búið að vera ljómandi gott. Við byrjuðum á tveimur túrum á Vestfjarðamið og fengum mjög góðan afla. Nú erum við í þriðja túrnum og erum að reyna við ufsa og gullkarfa á Fjöllunum suður af Reykjanesi. Karfaveiðin hefur reyndar verið treg, eins og við er að búast á þessum árstíma, en það hefur verið þokkalegasta ufsakropp í túrnum. Engin mokveiði en sæmilegasti afli engu að síður.“

Þetta sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Ásbirni RE, er við náðum tali af honum fyrr í dag. Að sögn Friðleifs var farið út eftir löndun sl. mánudag og aflinn var í dag kominn í um 60 tonn eftir rúma tvo sólarhringa á veiðum.
Segja má að úthaldið fyrir árið 2015 hafi hafist á miðnætti annars í jólum en þá fór Ásbjörn frá Reykjavík og var ferðinni heitið á Vestfjarðamið.

,,Þetta var fínn túr og góður afli. Uppistaðan í því sem við vorum að veiða var þorskur og ufsi og svo fékkst ýsa sem meðafli. Við lönduðum í Reykjavík 2. janúar sl. og fórum síðan aftur á Vestfjarðamið. Aflinn var mjög góður og aflasamsetningin sú sama og í fyrri túrnum. Við fórum svo inn til Ísafjarðar til millilöndunar á Þrettándanum og lukum síðan túrnum á Vestfjarðamiðum. Aflanum var landað í Reykjavík sl. mánudag og nú erum við sem sagt komnir á okkar gömlu heimamið,“ sagði Friðleifur.
Er rætt var við Friðleif var ágætis veður á veiðislóðinni en hann sagði að veðrið í gær hafi ekki verið eins gott. ,,Það var leiðinda skælingur á miðunum en það er s.s. ekki við öðru að búast um hávetur.“
Að sögn Friðleifs er þess ekki von, miðað við reynslu undanfarinna ára, að gullkarfinn fari að gefa sig til að neinu marki fyrr en upp úr miðjum febrúar. Mars og apríl séu yfirleitt mjög góður karfaveiðitími og hann voni að svo verði einnig nú.


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir