FréttirSkrá á póstlista

13.01.2015

Vinnsla hafin að nýju á Vopnafirði

Loðnufrysting hófst í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði í gærmorgun eftir að Faxi RE kom þangað með um 455 tonn af loðnu. Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra á Vopnafirði, er talið að um helmingur aflans henti til frystingar fyrir markaði í Austur-Evrópu. Lítið er um átu í loðnunni og hentar hún því vel til manneldis.

Hlé hefur verið á vinnslunni á Vopnafirði síðan síldveiðum lauk í byrjun nóvember sl. Það er því fagnaðarefni fyrir heimamenn að loðnuvertíðin sé hafin en að sögn Magnúsar eru nú 65 til 70 manns við vinnu í uppsjávarfrystihúsinu. Beðið er eftir meira hráefni áður en fiskmjölsverksmiðjan verður gangsett en þar er allt klárt fyrir vertíðina.

Afli Faxa nú er fyrsti loðnuafli skipa HB Granda á vertíðinni en Ingunn AK og Lundey NS eru nú á miðunum norður af Sléttu. Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa félagsins, var Ingunn komin með um 600 tonna afla um miðjan dag og átti eftir að hífa einu sinni. Reiknað er með því að skipið verði komið til Vopnafjarðar í nótt. Lundey var komin með um 330 tonn en það ræðst af veðri hve skipið verður lengi að veiðum.

,,Það er spáð brælu en þó hefur eitthvað verið dregið í land með veðurhæðina frá fyrri spám. Nú lítur út fyrir að versta veðrið verði á fimmtudag en síðan gangi það niður,“ sagði Ingimundur Ingimundarson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir