FréttirSkrá á póstlista

17.12.2014

Styttist í að beinar síldveiðar hefjist

,,Það er búin að vera ágæt makrílveiði og það er ekki mikið um síld með makrílnum þar sem við höfum verið að veiðum. Við höfum aðallega verið í Litladjúpi og við Hvalbakshallið og farið vestur undir Berufjarðarál og uppistaðan í aflanum hefur verið makríll sem er rúmlega 400 gamma þungur,“ sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann nú um miðjan dag.
Lundey fór frá Vopnafirði í morgun og var því rétt komin á miðin út af SA landi er haft var samband við Arnþór. Hann segir aflann í veiðiferðinni á undan hafa verið rúmlega 450 tonn en það er sá skammtur sem uppsjávarskipin hafa yfirleitt verið með í síðustu veiðiferðum.

,,Það fékkst síld með í fyrsta kastinu af fjórum en síðan var aflinn nánast hreinn makríll. Mér skilst að það séu eftir óveidd rúmlega 4.000 tonn af makrílkvóta HB Granda þannig að það styttist í að beinar síldveiðar hefjist. Ég held að Hornfirðingarnir séu byrjaðir á síldveiðum og að þeir hafi verið í Héraðsflóadjúpinu og út af því. Ég veit til þess að Faxi RE fékk síld á Héraðsflóanum í síðustu veiðiferð og ef að líkum lætur þá reynum við fyrir okkur þar þegar beinar síldveiðar hefjast,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

Af hinum tveimur uppsjávarveiðiskipum HB Granda er það að segja að verið er að landa úr Faxa á Vopnafirði og Ingunn AK er á leiðinni þangað með góðan makrílafla sem fékkst í tveimur köstum út af SA landi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir