FréttirSkrá á póstlista

11.12.2014

Góður afli Þerneyjar í rússnesku lögsögunni

Þerney RE er nú á leiðinni á Íslandsmið eftir ágæta veiðiferð í rússneska lögsögu í Barentshafi. Að sögn Sigurgeirs Jóhannssonar, fyrsta stýrimanns, voru aflabrögðin mjög góð eða alls um 655 tonn af fiski upp úr sjó á þeim rúmlega tveimur vikum sem skipið var að veiðum.

,,Við fórum að heiman 14. nóvember og vorum komnir á veiðar á Gæsabankanum um sex dögum síðar. Við héldum okkur mest þar, eða í kringum 72°N, og lengst fórum við austur á um 47°A.,“ segir Sigurgeir en hann kveður veðráttuna yfirleitt hafa verið skaplega. Mest kaldafýla en þó aldrei það slæmt veður að það hamlaði veiðum.

Að sögn Sigurgeirs er uppistaðan í aflanum góður þorskur af millistærð og þaðan af stærri.

,,Við erum með um 30 tonn af öðrum tegundum, mest grálúðu og svo nokkur tonn af ýsu. Annars eru þetta hlýri og skrápflúra,“ segir Sigurgeir en að hans sögn var Þerney eina íslenska skipið sem var að veiðum í rússnesku lögsögunni . ,,Það voru nokkur rússnesk skip þarna, þrír færeyskir togarar og svo voru tveir grænlenskir togarar á leiðinni.“

Er rætt var við Sigurgeir var Þerney stödd út af strandlengju Finnmerkurfylkis og reiknaði hann með því að ef allt gengi að óskum þá yrði skipið komið á veiðar í íslensku lögsögunni nk. föstudag. Veiðiferðinni lyki síðan skömmu fyrir jól.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir