FréttirSkrá á póstlista

05.12.2014

Ásbjörn aftur á veiðar eftir óhapp á Vestfjarðamiðum

Betur fór en á horfði þegar ísfisktogarinn Ásbjörn RE lenti í því óhappi í fyrrakvöld að fá trollpokann í skúfuna. Skipið var þá statt á Halamiðum og brugðust skipstjórnarmenn hárrétt við með því að kalla strax á aðstoð. Svo vel vildi til að annar ísfisktogari HB Granda, Sturlaugur H. Böðvarsson AK, var einnig að veiðum á Vestfjarðamiðum og varð það úr ráði að Sturlaugur dró Ásbjörn til hafnar á Ísafirði.

,,Við vorum að veiðum á Þverálshorninu og í um tveggja tíma siglingu frá Ásbirni þegar við fréttum af þessu óhappi,“ segir Magnús Kristjánsson, skipstjóri á Sturlaugi, en hann segir að Ásbjörn hafi verið tekinn í tog um þrjúleytið í fyrrinótt. Gott veður var á miðunum og voru skipin komin til Ísafjarðar laust fyrir hádegi í gær.

Að sögn Gísla Jónmundssonar, skipaeftirlitsmanns hjá HB Granda, var búið að gera ráðstafanir til að fá kafara á Ísafirði til að losa netið úr skrúfunni og gekk það verk vel. Togarinn fór aftur til veiða síðdegis sama dag.

,,Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef frá yfirvélstjóra, þá var skrúfubúnaður og gír prófaður fyrir brottför og svo virðist sem að enginn skaði hafi hlotist af þessu óhappi. Ekki varð vart við olíuleka á skrúfuþétti eða nokkurn titring frá aðalvél skipsins. Kafarar sáu sömuleiðis ekki betur en að skrúfublöðin og stýri væru í góðu lagi,“ segir Gísli Jónmundsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir