FréttirSkrá á póstlista

02.12.2014

Ottó N. Þorláksson RE frá vegna bilunar í aðalvél

Ljóst þykir að ísfisktogarinn Ottó N. Þorláksson RE verði frá veiðum í allt að tvo og hálfan mánuð vegna bilunar í aðalvél. Bilunin kom í ljós fyrir síðustu helgi áður en skipið fór til veiða og var það lán í óláni miðað við það veður sem gekk yfir landið á sl. sunnudag.

Að sögn Gísla Jónmundssonar, skipaeftirlitsmanns hjá HB Granda, er bilunin fólgin í því að höfuðlega í aðalvélinni hefur gefið sig. Ekki sé ljóst hve mikið sú bilun hefur skemmt út frá sér en menn óttist að sveifarás og fleira hafi einnig orðið fyrir tjóni.

,,Það er búið að semja við Stálsmiðjuna - Framtak um að gera við aðalvélina og menn telja best að taka vélina úr skipinu áður en hún verður tekin í sundur. Vinna við verkið hefst á morgun og fyrr en búið er að taka vélina í sundur er ekki hægt að svara því hve skemmdirnar eru miklar,“ segir Gísli en hann segir að upptektin á aðalvélinni taki í það minnsta sex vikur ef ekkert óvænt kemur upp á . Miðað við að jólahátíðin og áramótin eru framundan gæti verkinu því í alfyrsta lagi lokið um mánaðamótin janúar og febrúar.

Ekki þarf að fjölyrða um að bilunin kemur sér illa fyrir hráefnisöflun HB Granda fyrir landvinnsluna í Reykjavík og á Akranesi og ekki síður fyrir áhöfnina á Ottó N. Þorlákssyni. HB Grandi gerir út þrjá aðra ísfisktogara og væntanlega verður að stýra úthaldi þeirra með öðrum hætti á meðan fjórði ísfisktogarinn er úr leik.

Ottó N. Þorláksson var smíðaður árið 1981 í Garðabæ og hefur togarinn reynst einstaklega vel þótt hann sé kominn til ára sinna. Að sögn Gísla hefur viðhaldi skipsins alla tíð verið sinnt mjög vel og í sumar sem leið var aðalvél þess tekin upp og skipt var um allar legur. Orsök bilunarinnar nú er því ráðgáta sem menn vonast til að fá svör við á næstu vikum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir