FréttirSkrá á póstlista

01.12.2014

Kaflaskipt veiði á Vestfjarðamiðum

Frystitogarinn Höfrungur III AK er nú á veiðum á Vestfjarðamiðum. Skipstjórinn, Ævar Jóhannsson, bjóst við því að kvöldið og nóttin myndu taka á í því óveðri sem gekk yfir landið í gær. Rætt var við Ævar síðdegis í gær en að hans sögn hefur veiðiferðin, sem standa mun til 4. desember n verið kaflaskipt. Suma dagana hafi fengist góður afli en aðra daga hafi aflabrögðin verið treg.

,,Við byrjuðum veiðiferðina með því að fara á miðin fyrir norðan land en skipið var í slipp á Akureyri í fimm vikur áður en haldið var úr höfn. Aflinn var frekar dræmur og eins áttum við í vandræðum með spilbúnaðinn. Síðan var farið á Vestfjarðamið,“ segir Ævar en fyrst var reynt við ufsaveiðar á Halanum.

,,Ufsaaflinn var ekkert sérstakur en þó má segja að þetta hafi verið sæmilegt nudd, eins og við orðum það. Karfaveiði var hins vegar ágæt og eftir að við færðum okkur yfir á Hampiðjutorgið hef ég heyrt af því að skip hafi verið að fá mjög góðan karfaafla á Halanum. Um þorskveiðina þarf ekki að fjölyrða. Það voru mjög margir togarar á þorskveiðum á svæðinu og aflabrögðin voru góð. Við reynum hins vegar að forðast þorskinn og hið sama gegnir um ýsuna. Það virðist vera nóg af ýsu og við fengum a.m.k. mjög góðan ýsuafla hér fyrir vestan í ágústmánuði þegar við máttum sækja í ýsuna. Nú er heildarúthlutunin þannig að allir forðast beina sókn í ýsu og ég get nefnt það sem dæmi að sennilega erum við komnir með um sjö tonn af ýsu sem meðafla í veiðiferðinni. Þrátt fyrir það höfum við reynt að forðast helstu staðina þar sem góðrar ýsuveiði er von.“

Að sögn Ævars hefur veiðin á Hampiðjutorginu aðallega snúist um veiðar á karfa, gulllaxi og grálúðu.

,,Veiðin hefur verið þokkaleg en veðráttan hefur verið frekar óblíð lengst af veiðiferðinni. Nú er spáð stormi og flest skipin hafa leitað vars inni á Ísafjarðardjúpi. Við erum hér úti með tveimur öðrum togurum en þótt veðrið verði slæmt er því spáð að það gangi fljótt yfir,“ segir Ævar Jóhannsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir