FréttirSkrá á póstlista

26.11.2014

Uppgjör HB Granda hf. á þriðja ársfjórðungi 2014

Rekstur þriðja ársfjórðungs ársins 2014

Rekstrartekjur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi voru 68,3 m€ á móti 50,7 m€ á þriðja ársfjórðungi 2013.
EBITDA nam 26,4 m€ á þriðja ársfjórðungi í ár en 14,9 m€ á sama tímabíli 2013.
Hagnaður á þriðja ársfjórðungi var 20,0 m€ samanborið við 9,7 m€ í fyrra.
Birgðir aukast um 15,9 m€ og viðskiptakröfur um 13,3 m€ frá áramótum og liggur meginskýringin í árstíðasveiflum.
Norðanfiskur ehf. er hluti af samstæðureikningi frá 22. maí 2014.

Rekstur fyrstu níu mánaða ársins 2014

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 námu 155,6 m€, samanborið við 150,0 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 45,0 m€ eða 28,9% af rekstrartekjum, en var 39,0 m€ eða 26,0% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 0,9 m€, en voru jákvæð um 2,2 m€ á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 3,7 m€, en voru neikvæð um 0,4 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 38,8 m€ og hagnaður tímabilsins var 30,6 m€ á móti 25,9 m€ fyrstu níu mánuði ársins 2013.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 390,5 m€ í lok september 2014. Þar af voru fastafjármunir 296,0 m€ og veltufjármunir 94,5 m€. Eigið fé nam 215,6 m€ og eiginfjárhlutfall í lok september var 55,2%, en var 60,5% í lok árs 2013. Heildarskuldir félagsins voru í septemberlok 174,9 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 14,9 m€ á tímabilinu, en nam 30,8 m€ á sama tímabili fyrra árs. Fjárfestingarhreyfingar námu 30,8 m€, þar af nam fjárfesting vegna smíði nýrra skipa 20,9 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 15,7 m€, þar af nam aukning skammtímalána 40,3 m€. Handbært fé lækkaði því um 0,3 m€ og var í lok september 12,0 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrstu níu mánaða ársins 2014 (1 evra = 154,8 kr) verða tekjur 24,1 milljarðar króna, EBITDA 7,0 milljarðar og hagnaður 4,7 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. september 2014 (1 evra = 152,3 kr) verða eignir samtals 59,5 milljarðar króna, skuldir 26,6 milljarðar og eigið fé 32,8 milljarðar.

Skipastóll og afli

Skipafloti félagsins var óbreyttur á tímabilinu. Unnið er að smíði tveggja nýrra uppsjávarveiðiskipa í Tyrklandi. Gert er ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent í apríl á næsta ári og það síðara í lok ársins 2015. Einnig er verið að leggja lokahönd á hönnun og teikningar þriggja nýrra ísfisktogara sem samið hefur verið um smíði á.
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 var afli skipa félagsins 41 þúsund tonn af botnfiski og 94 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Sala eignarhlutar í Stofnfiski

Þann 21. nóvember var gengið frá samkomulagi um sölu á eignarhlut í Stofnfiski hf. Söluverðið nemur 12,0 m€ og er áætlaður söluhagnaður eignarhlutans 3,6 m€.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningur var samþykktur á stjórnarfundi HB Granda hf. 26. nóvember 2014. Árshlutauppgjör HB Granda hf. er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards). Árshlutauppgjörið hefur ekki verið kannað af endurskoðendum félagsins.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri, sími 858-1007.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir