FréttirSkrá á póstlista

22.11.2014

HB Grandi selur hlut sinn í Stofnfiski hf.

Þann 23. október síðastliðinn sendi HB Grandi hf. frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands um viðræður við ákveðinn fjárfesti um hugsanlega sölu á eignarhluta félagsins í Stofnfiski hf. Í framhaldi af því hefur verið gengið frá kaupsamningi á milli HB Granda hf. og Benchmark Genetics Limited vegna kaupa hins síðarnefnda á öllum hlutum HB Granda hf. í Stofnfiski.

Eignarhlutur HB Granda hf. í Stofnfiski hf. nam 64,94% af hlutafé félagsins og var bókfært verð eignarhlutarins, samkvæmt ársreikningi HB Granda hf. vegna ársins 2013, skráð 7,1 milljónir evra í árslok 2013.

Sjá nánar um BGL: http://www.benchmarkplc.com/#feature

Stofnfiskur hf. er stærsti framleiðandi á Íslandi á laxahrognum og er fyrirtækið auk þess leiðandi í kynbótum fyrir fiskeldi. Benchmark Genetics Ltd. var stofnað árið 2000 og er í eigu Benchmark Holding Plc. sem er skráð á UK AIM verðbréfamarkaðinn í Bretlandi en félagið sérhæfir sig m.a. í líftæknilausnum á sviði fiskeldis og landbúnaðar.

Söluverð eignarhluta HB Granda hf. nemur um 1.858 milljónum íslenskra króna eða um 12 milljónum evra og miðast kaupin við að greitt verði fyrir eignarhlutinn með peningagreiðslu við móttöku hlutanna. Söluverð hlutanna getur þó hækkað nái Stofnfiskur hf. sölumarkmiðum sínum innan þriggja ára en hæst getur söluverð hlutanna numið 3.158 milljónum íslenskra króna. Að auki verður rekstrarlán HB Granda hf. til Stofnfisks hf., sem nam um 8,6 milljónum evra í árslok 2013, greitt upp af hálfu Stofnfisks hf. í kjölfar sölunnar.

Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um endanlega fjármögnun Benchmark Genetics. Ekki er þörf á að leita samþykkis Samkeppniseftirlitsins fyrir kaupunum þar sem tilkynningarviðmiðum 17. gr. a. samkeppnislaga nr. 44/2005 er ekki náð. Samkeppniseftirliti verður engu að síður upplýst um kaupin. Ráðgjafar HB Granda hf. í viðskiptum þessum eru Fjármálaráðgjöf Deloitte og Advel lögmenn.

„Við hjá HB Granda hf. erum afar ánægð með að hafa komið að uppbyggingu Stofnfisks hf og eru kaup Benchmark samstæðunnar til þess fallin að efla enn frekar starfsemi félagsins og gefa því færi á að sækja í auknum mæli fram á alþjóðavísu.“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda hf.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir