FréttirSkrá á póstlista

14.11.2014

Nýja kælingarkerfið í Helgu Maríu AK virkar vel

Ísfisktogarinn Helga María AK lét úr höfn í Reykjavík í gærkvöldi eftir stutt stopp en að sögn skipstjórans, Eiríks Ragnarssonar, kom togarinn til hafnar á miðvikudagsmorgun eftir veiðiferð á Vestfjarðamið. Aflinn var um 170 tonn af fiski upp úr sjó og segir skipstjórinn það ágætan afla i ljósi þess afleita tíðarfars sem verið hefur á miðunum margar undanfarnar vikur.

,,Við erum yfirleitt að veiðum í fjóra til fimm daga í hverri veiðiferð. Eins rysjótt og tíðin hefur verið höfum við mátt þakka fyrir að fá einn eða tvo daga með skaplegu veðri í hverjum túr. Það hefur bjargað þessu hjá okkur.“

Sem kunnugt er var Helgi Maríu breytt úr frystitogara í ísfisktogara í Póllandi og hóf skipið veiðar sem ísfisktogari fyrr á þessu ári. Að sögn Eiríks hefur skipið komið vel út. Ánægja sé með búnaðinn og aðgerðaraðstöðuna en ýmislegt eigi þó eftir að fínstilla.

,,Það, sem væntanlega hefur tekist best, er blóðgunin og kæling aflans. Eftir að fiskurinn er blóðgaður fer hann í blóðgunarkar í 15 mínútur og þaðan inn á snigil- eða kælingartromlur. Þar er krapaís blandað saman við fiskinn með tölvustýrðum búnaði. Það fer eftir stærðinni, sem verið er að veiða hverju sinni, hve langan tíma er verið að kæla fiskinn niður -0,5°C til +0,5°C,“ segir Eiríkur en hann getur þess að fiskur upp úr sjó að sumarlagi geti verið allt að 12°C heitur og því sé mikilvægt að kæla aflann, sem fara á til framhaldsvinnslu í landi, sem allra fyrst og hraðast.

Að sögn Eiríks hefur notkun Thyboron flottrollshlera á botntrollsveiðunum verið reynd með góðum árangri síðustu vikunar.

,,Ég er mjög ánægður með árangurinn og fegnastur því að losna við lóðin eða keðjurnar sem margir nota með flottrollshlerunum. Við erum komnir með þannig hlera að þeir virka fullkomlega og fara aldrei í botn,“ segir Eiríkur Ragnarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir