FréttirSkrá á póstlista

07.11.2014

Hver brælan rekur aðra

,,Ætli það megi ekki segja að brælurnar leiki aðalhlutverkið þessa dagana. Við höfum fengið hverja bræluna á eftir annarri alla veiðiferðina en þegar það er veiðiveður þá hefur aflinn verið ágætur.“

Þetta segir Ægir Franzson, skipstjóri á Þerney RE í veiðiferðinni sem hófst um miðjan síðasta mánuð. Togarinn er nú að veiðum út af hinu svokallaða Hampiðjutorgi á Vestfjarðamiðum og að sögn Ægis hefur veðrið skánað frá því í nótt sem leið.

,,Vindhraðinn náði 25 m/s í nótt en nú er vindhraðinn ekki nema 15 m/s,“ segir Ægir sem býst við heldur skárra veðri næstu dagana en reiknað er með því að Þerney komi til hafnar í Reykjavík eftir sex daga. Aflinn í dag samsvarar tæplega 500 tonnum af fiski upp úr sjó.

,,Við hófum veiðar í Skerjadjúpinu og vorum þar í gullkarfa og djúpkarfa auk þess sem töluvert fékkst af gulllaxi. Síðan færðum við okkur norður og það hefur verið ágæt karfaveiði alveg frá Víkurálnum norður á Torgið og Halann. Við reynum að forðast þorskinn en ufsaveiði hefur verið ágæt þá daga sem á annað borð hefur verið hægt að vera að veiðum vegna veðurs.“

Að sögn Ægis er Hampiðjutorgið og svæðið út af því enn gjöfult á grálúðu en líkt og alltaf þá verða menn að fylgja hitaskilum. Stundum stendur grálúðan það djúpt að það er aðeins á færi öflugustu skipanna að ná árangri.

,,Það er varla hægt að segja annað en að aflinn er í tregari kantinum en að sumu leyti er þessum eilífa lægðagangi um að kenna. Við höfum verið að fá grálúðu á um 300 faðma dýpi og mest höfum við farið niður á um 700 faðma. Karfi veiðist með en útbreiðsla þess fisks til norðurs virðist bara halda áfram,“ segir Ægir Franzson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir