FréttirSkrá á póstlista

04.11.2014

HB Grandi meðal stofnaðila öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins

Stofnað hefur verið öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins. Samkomulag þar að lútandi var undirritað sl. föstudag í tengslum við alþjóðlegu Norðurslóðaráðstefnuna Arctic Circle sem fram fór í Hörpunni. Stofnaðilar eru 12 talsins en auk stjórnvalda og Reykjavíkurborgar taka háskólasamfélagið, rannsóknastofnanir og fyrirtæki þátt í stofnun setursins sem fengið hefur nafnið Oceana. Meðal stofnaðila er HB Grandi en frumkvöðull að stofnun Oceana er Jón Ágúst Þorsteinsson, stjórnarformaður Marorku.

Að sögn Svavars Svavarssonar, deildarstjóra viðskiptaþróunar HB Granda, er hér um að ræða samstarfsvettvang um rannsóknir, þróun, framleiðslu og kynningu á tæknilausnum sem stuðla að vernd hafsins.
,,Stofnun Oceana – öndvegisseturs undirstrikar virðingu okkar fyrir hafinu og þeirri staðreynd að hreint haf umhverfis Ísland er undirstaða góðra lífskjara þjóðarinnar. Það er því hagur okkar, sem nýtum þessa dýrmætu auðlind, að unnið verði markvisst að umhverfisvænum lausnum til að viðhalda hreinu hafi og sjálfbæru lífríki þess til frambúðar,” segir Svavar Svavarsson.

Meðal þeirra sem undirrituðu samkomulagið var Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands. Á heimasíðu ráðuneytisins segir að markmiðið með stofnun setursins sé að efla þátttöku og starf innlendra og erlendra aðila á alþjóðavísu að nýtingu grænnar tækni sem tengist hafinu og verndun þess. Áhyggjur þjóða af mengun hafsins hafi aukist mjög á undanförnum árum og áratugum og mikil umræða sé á alþjóðavettvangi um nauðsyn þess að huga að umhverfismálum, sjálfbærni og verndun hafsvæða.

Myndin: Frá undirrituninni. (F.h.) Steinþór Pálsson, Lansbankinn, K-C Tran, Clean Tech Iceland,Jón Ágúst Þorsteinsson, ARK Technology/Marorka, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Ari Jónsson, rektor Háskóla Reykjavíkur. Aðrir, sem rituðu undir en eru ekki á myndinni, voru Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, Svavar Svavarsson, viðskiptaþróun HB Granda, Ágústa Loftsdóttir, Orkustofnun og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir