FréttirSkrá á póstlista

01.11.2014

HB Grandi verður áfram einn helsti styrktaraðili Sjóminjasafnsins í Reykjavík

Skrifað hefur verið undir samning um að HB Grandi verði helsti styrktaraðili Sjóminjasafnsins í Reykjavík næstu fimm árin. Í samningnum felst að HB Grandi fær m.a. að nýta húsnæði safnsins undir fundi, móttökur, undirritanir samninga og skylda viðburði.

Að sögn Guðbrands Benediktssonar, safnstjóra Borgarsögusafnsins, sem Sjóminjasafnið heyrir undir, er samningurinn mikil viðurkenning fyrir starfsemi safnsins.

,,Það er okkur mikil ánægja og heiður að fá stuðning frá stærsta og einu virtasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins til að halda áfram þeirri uppbyggingu sem hófst hér á safninu árið 2005. Hér erum við með sýningu um útgerð og fiskvinnslu, en hana viljum við hugsa upp á nýtt frá grunni með áherslu á samspil mannsins við hafið“ segir Guðbrandur. Hann segist ekki viss um að fólk átti sig fyllilega á því hve sjávarútvegurinn skiptir Reykvíkinga miklu máli og hafi skipt í áranna rás.

,,Útgerð í Reykjavík tengist atvinnusögu borgarinnar órjúfanlegum böndum, allt frá upphafi. Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913 til 1917 var stórvirki á sínum tíma og ótrúlegt framfaraskref. Þessari sögu viljum við miðla til Íslendinga og erlendra ferðamanna og stórefla alla fræðslu,“ segir Guðbrandur Benediktsson en að hans sögn er búist við allt að 50.000 gestum í safnið á þessu ári.

Á myndinni eru (f.v.) Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri HB Granda, Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, og Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri. Mynd/HB Grandi: Kristján Maack.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir