FréttirSkrá á póstlista

31.10.2014

Vinnslu á íslensku sumargotssíldinni lokið

Starfsmenn uppsjávarfrystihúss HB Granda á Vopnafirði luku við að vinna úr síldarafla Faxa RE snemma í gærmorgun. Þar með lauk stuttri en snarpri vertíð en veiðar á íslenskri sumargotssíld hófust í byrjun mánaðarins.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, var Faxi með um 870 tonn af síld í veiðiferðinni en hvert hinna þriggja uppsjávarveiðiskipa félagsins náði að fara í þrjár veiðiferðir á vertíðinni. Ólíkt veiðinni undanfarin haust virðist síldin enn ekki hafa gengið inn í Breiðafjörðinn. Þá var helsta veiðisvæðið á sundunum í nágrenni Stykkishólms en að þessu sinni var veiðisvæðið í Kolluálnum eða töluvert fjarri landi.

,,Við tókum á móti tæplega 9.000 tonnum af síld á vertíðinni. Veiðar og vinnsla gengu mjög vel og alls náðum við að frysta rúmlega 4.000 tonn af afurðum,“ segir Magnús Róbertsson en þess má geta að síldin er aðallega unnin í svokölluð samflök.

Hlé er nú í vinnslu í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði og þar hefst vinnsla væntanlega ekki að nýju fyrr en farið verður að frysta loðnu. Næsta verkefni uppsjávarveiðiskipanna verða veiðar á kolmunna en þær gætu hafist undir lok næsta mánaðar.

,,Framundan hjá okkur eru þrif í vinnslunni og svo nauðsynlegt viðhald á tækjum og búnaði,“ segir Magnús Róbertsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir