FréttirSkrá á póstlista

24.10.2014

Nemendur Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ heimsóttu HB Granda

Það er gestkvæmt hjá HB Granda þessa dagana og fyrr í dag heimsóttu nemendur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna fyrirtækið ásamt stjórnendum skólans, þeim Tuma Tómassyni, Þór Ásgeirssyni og Mary Frances Davidson.

Um móttöku hópsins sáu Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, og aðrir lykilstjórnendur félagsins.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tók til starfa á árinu 1998. Skólinn er að mestu leyti fjármagnaður með hluta af framlagi Íslands til þróunarmála og með framlögum frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Í náminu, sem tekur sex mánuði, er lögð áhersla á hagnýta þekkingu og reynslu, og geta nemendur í ár valið um þrenns konar sérsvið, gæðastjórnun, fiskeldi eða stofnstærðamat.

Að þessu sinni eru nemendur við skólann 21 talsins frá alls 15 þjóðlöndum. Þau eru Gana, Nígería, Tansanía, Kenía, Úganda, Sri Lanka, Bangladesh, Kína, Víetnam, Austur-Tímor, Úkraína, Kúba, St. Vincent og Grenadines, Dómínika og Jamæka.

Dagskráin sem HB Grandi bauð upp á í tilefni af heimsókn hópsins var með þeim hætti að Brynjólfur bauð gestina velkomna og hélt kynningu á sölu- og markaðsstarfi HB Granda. Bergur Einarsson, gæðastjóri landvinnslunnar í Reykjavík, ásamt Halldóri Pétri Ásbjörnssyni, aðstoðarverkstjóra í Norðurgarði og Jóni Páli Gestssyni, móttökustjóra, fóru síðan með hópinn í kynningarferð um fiskiðjuverið í Norðurgarði. Brynjólfur og Erlendur Stefánsson, gæðastjóri HB Granda, fóru að lokum með hópinn í stutta kynningarferð um Ísbjörninn, hina nýju frystigeymslu félagsins á Norðurgarði.

,,Það var mjög gaman að taka á móti þessum hópi enda voru allir nemendurnir mjög áhugasamir um íslenskan sjávarútveg og starfsemi íslenskra fyrirtækja. Spurningarnar voru margar um allt milli himins og jarðar sem tengist veiðum, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða,“ segir Brynjólfur Eyjólfsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir