FréttirSkrá á póstlista

22.10.2014

Konur í sjávarútvegi heimsóttu HB Granda

Góðir gestir heimsóttu höfuðstöðvar HB Granda í Reykjavík nú í hádeginu en þar voru á ferð 27 konur úr félaginu Konur í sjávarútvegi. Félagskonur reyna að hittast í hádeginu einn dag í mánuði og heimsækja fyrirtæki og stofnanir innan sjávarútvegsins og að þessu sinni var röðin komin að HB Granda.

,,Þetta var mjög skemmtileg heimsókn. Við buðum þeim upp á karfa í hádegismat í mötuneytinu í Norðurgarði og nokkrar konur sem starfa hjá HB Granda sátu með þeim og spjölluðu. Eftir hádegismatinn héldum við kynningu um starfsemi HB Granda og fengum við líflegar umræður þar sem m.a. Elva Jóna Gylfadóttir starfsþróunarstjóri, Inga Jóna Friðgeirsdóttir, sem stýrir fiskþurrkun HB Granda, og markaðsfulltrúarnir Sonja Óskarsdóttir og Fjóla Stefánsdóttir kynntu sitt starf fyrir gestunum. Það er ljóst að í sjávarútvegi starfa margar öflugar konur.“ segir Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, sem tók á móti hópnum.

Konur í sjávarútvegi (KIS) eru ekki gamall félagsskapur en til félagsins var stofnað á vormánuðum í fyrra. Að sögn Hildar Sifjar Kristborgardóttur, formanns KIS, var markmiðið með stofnun félagsins að mynda gott og jákvætt tengslanet kvenna sem starfa í sjávarútvegi eða greinum sem honum tengjast.

,,Við vorum tíu talsins sem stofnuðum félagið en það telur nú 115 konur. Félagið er ekki bara fyrir konur í stjórnunarstöðum í sjávarútvegi, félagið er fyrir allar konur, svo lengi sem þú vinnur í sjávarútvegi eða afleiddu störfunum. Þvert á móti viljum við ná til sem flestra kvenna innan sjávarútvegsins, óháð því hvaða störfum þær gegna,“ segir Hildur Sif en í máli hennar kemur fram að auk svokallaðs hádegishittings þá hafi félagið efnt til dagsferða til Grindavíkur og Vestmannaeyja og í þeim ferðum hafi sjávarútvegsfyrirtæki á viðkomandi stöðum verið heimsótt. Fyrirhuguð er ferð á Snæfellsnes og heimsókn í fiskvinnslufyrirtæki í Reykjavík er einnig á dagskránni.

,,Reynslan sýnir að eftir hverja heimsókn þá bætast fleiri konur í hópinn. Okkur langar til að koma á samstarfi við háskólasamfélagið og kynna fyrir ungum konum þá ótrúlegu starfsmöguleika sem er að finna innan sjávarútvegsins og þeirra greina sem þjónusta hann. Maður heldur að maður viti allt en bara heimsóknin í HB Granda í dag var mér ákveðin opinberun. Ég get varla beðið eftir því að fara í kynnisferð um fiskiðjuver félagsins og kynna mér þá tækni sem þar er nýtt,“ sagði Hildur Sif Kristborgardóttir.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir