FréttirSkrá á póstlista

21.10.2014

Vindhraðinn fór upp í 51 m/sek á landleiðinni

Faxi RE kom til Vopnafjarðar um miðja síðustu nótt eftir erfiða siglingu frá síldarmiðunum vestan við landið. Farið var suður fyrir land vegna norðanóveðursins sem geisað hefur síðasta sólarhringinn en að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra var þó stormur alla leiðina. Mest sló vindhraðamælirinn í 51 m/sek. Þar sem siglt var nærri landi alla leiðina var sjólag þó ekki slæmt.

,,Það má segja að veðrið hafi ekki gengið niður að gagni fyrr en við vorum að nálgast höfnina á Vopnafirði,“ segir Albert en hann segir að áætlaður afli í veiðiferðinni sé tæplega 900 tonn. Hann fékkst í fjórum holum djúpt vestur af Snæfellsjökli og út af Faxaflóa.

Albert segir að ágæt veiði hafi fengist á veiðisvæðinu vestur af Jökli en þegar aflinn tregaðist þar fundust ágætar lóðningar djúpt í utanverðum Faxaflóa. Þar luku Albert og hans menn veiðiferðinni og þegar Faxi lagði upp í siglinguna voru nokkur skip búin að finna síld djúpt vestur af Malarrifi. Ekkert hefur verið leitað að síld á sundunum í nágrenni Stykkishólms síðan leit þar bar engan árangur fyrstu daga vertíðarinnar.

Er rætt var við Albert var verið að ljúka við löndun úr Lundey NS á Vopnafirði og löndun á afla Faxa að hefjast. Ingunn AK er á miðunum fyrir vestan land í sinni þriðju og síðustu veiðiferð á þessari stuttu vertíð. Lundey og Faxi eiga hvort um sig eina veiðiferð eftir.

Næsta verkefni uppsjávarveiðiskipanna verða svo væntanlega kolmunnaveiðar sunnan við Færeyjar en þær hefjast varla fyrr en seinni hluta næsta mánaðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir