FréttirSkrá á póstlista

16.10.2014

Góðar lóðningar í gærkvöldi en ekkert að sjá í dag

Síldin er brögðótt og brellin eða svo segja menn. Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, getur tekið undir það. Í gærkvöldi þegar Lundey kom á miðin lóðaði á góðar torfur djúpt vestur af Snæfellsjökli. Tvö stutt hol skiluðu alls um 460 tonna afla en í dag er ekkert að sjá.

,,Við erum í Kolluálnum, aðeins sunnan við Snæfellsnesið, en auk okkar er bara Jóna Eðvalds SF á miðunum. Þetta er mjög stórt svæði og það er s.s. lítið að marka að tvö skip verði ekki vör við síld en mín tilfinning er sú að síldin liggi þétt við botninn í dag og komi því ekki eða illa fram á mælum,“ segir Arnþór.

Fyrsta skip HB Granda fór til veiða á íslensku sumargotssíldinni 7. október sl. og var fyrsta aflanum landað á Vopnafirði þremur dögum síðar. Eftir að öll þrjú skip félagsins höfðu farið eina veiðiferð var aflinn samtals um 2.900 tonn en veiðiheimildirnir nema um 8.800 tonnum á vertíðinni.

Að sögn Arnþórs hefur svæðið á sundunum í nágrenni Stykkishólms ekki verið kannað með tilliti til síldargengdar frá því að Jóna Eðvalds leitaði þar að síld fyrstu daga vertíðarinnar. Einhver skip eru á síldveiðum út af Austfjörðum og SA-landi en þar mun norsk-íslensk síld enn vera uppistaðan í aflanum. Þykir það hugsanlega benda til að hluti stofnsins haldi sig hugsanlega við Ísland og hrygni hér í stað þess að ganga á hrygningarstöðvarnar við Noregsstrendur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir