FréttirSkrá á póstlista

15.10.2014

Sjófrystur karfi og ufsi hafa hækkað mikið í verði á árinu

Mikil verðhækkun hefur orðið á sjófrystum karfa- og ufsaafurðum á þessu ári. Verð á 300-500g gullkarfa hefur hækkað um 33% frá áramótum og verð á 16-32 oz ufsaflökum um 25%.

„Viðbrögð við því hafa verið að auka vægi sjófrystingar á kostnað landfrystra afurða fyrir þessar tegundir,“ segir Smári Einarsson, sölustjóri hjá HB Granda.

„Almennt hefur veiði skipanna gengið vel og útlit fyrir að verð haldist áfram hátt fyrir sjófrystar afurðir. Sveigjanleiki í útgerðarmynstri skiptir miklu máli. Fyrirtækið getur fært aflaheimildir á milli ísfisk- og frystiskipa og brugðist þannig fljótt við breytingum á helstu mörkuðum. Þetta höfum við nýtt okkur og lagt meiri áherslu á að vinna þorsk í landi og á móti fært aukinn karfa- og ufsakvóta yfir á frystiskipin.“
Landfrystar afurðir koma til með að hækka

Verð á landfrystum afurðum hefur verið stöðugt að undanförnu en búast má við hækkunum þar sem framboð landfrystra afurða hefur minnkað í samkeppni við sjófrystar og ferskar afurðir fyrirtækisins.

Að sögn Davíðs J. Davíðssonar, sölustjóra landfrystra afurða, eru spennandi tímar framundan í landvinnslunni. Oft hefur verðþróun landfrystra afurða fylgt þeirri þróun sem hefur orðið í sjófrystum afurðum. Að auki verður spennandi að sjá hvaða áhrif MSC vottun á gullkarfa mun hafa á eftirspurn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir