FréttirSkrá á póstlista

09.10.2014

Fyrsta sumargotssíldin á leið til Vopnafjarðar

,,Við erum með á milli 900 og 1.000 tonn af síld en þessi afli fékkst í fjórum holum suður af Látragrunni, djúpt vestur af Snæfellsnesi,“ sagði Róbert Axelsson, 1. stýrimaður á Ingunni AK, er við náðum tali af honum upp úr hádeginu. Ingunn var þá á leiðinni til Vopnafjarðar með fyrsta farminn af íslenskri sumargotssíld en veiðar hófust fyrr í þessari viku.

Ingunn fór frá Reykjavík sl. þriðjudag og fyrir var þá eitt skip á miðunum, Jóna Eðvalds SF, sem verið hafði við síldarleit á sundunum í nágrenni Stykkishólms.

,,Það var ekkert að sjá á sundunum inni í Breiðafirði og það var ekki fyrr en komið var hingað út að vart varð við síldarlóðningar. Við vorum að veiðum í rúman sólarhring þannig að ég held að þessi byrjun lofi góðu hvað varðar vertíðina,“ sagði Róbert.

Síldin, sem Ingunn fékk í veiðiferðinni, er nokkuð stór eða á milli 320 til 340 grömm að þyngd að jafnaði. Hún virðist sömuleiðis vera þokkalega haldin eftir hrygninguna og gæðin eiga bara eftir að batna þegar líður á haustið.

Róbert sagði að Lundey NS væri nú á miðunum vestur af Snæfellsjökli og reiknað væri með að Faxi RE færi til veiða á morgun. Ef að allt gengur að óskum verður Ingunn á Vopnafirði um miðja næstu nótt.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir