FréttirSkrá á póstlista

03.10.2014

Ágæt karfa- og grálúðuveiði hjá Höfrungi III AK

Frystitogarinn Höfrungur III AK kom til Akureyrar seint í gærkvöldi en þar fer skipið í slipp. Höfrungur III kom til hafnar í Reykjavík sl. mánudagsmorgun með afla sem svarar til um 9.500 kassa en tíu dögum áður fór fram millilöndun í Reykjavík og þá nam aflinn um 12.300 kössum.

Haraldur Árason skipstjóri lætur vel af veiðiferðinni sem stóð samtals í 26 sólarhringa.

,,Það var lögð áhersla á að veiða karfa og grálúðu í veiðiferðinni og við hófum veiðar fyrir við SV-land. Þaðan færðum við okkur norður í Víkurálinn þar sem eru ágæt grálúðumið. Hampiðjutorgið er út af Víkurálnum en þar er yfirleitt togað á dýpi frá um 300 föðmum og niður á 500 faðma dýpi. Við fórum dýpst niður á 450 faðma og fengum ágætis grálúðuafla og svo er alltaf djúpkarfi þarna,“ segir Haraldur.

Eftir þetta lá leiðin norðaustur á Halamið og þar fékkst ágætur karfaafli.

,,Við enduðum svo túrinn fyrir austan á grálúðumiðunum út af Héraðsflóanum og Seyðisfjarðardjúpinu. Þar heldur grálúðan sig grynnra og mest er togað á 200 til 300 faðma dýpi,“ segir Haraldur en segja að markmiðið með veiðiferðinni hafi náðst því uppistaðan í aflanum var góður karfi og einnig töluvert af grálúðu.

Að sögn Haraldar var nú kominn tími á slipptöku.

,,Það þarf að yfirfara allan búnað eins og gengur og eins á að sandblása botninn. Svona slipptaka tekur oftast um fjórar vikur og við ættum því að komast aftur á veiðar eftir rúman mánuð ef allt gengur að óskum,“ segir Haraldur Árnason.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir