FréttirSkrá á póstlista

26.09.2014

Mennt er máttur – ekki síst í sjávarútvegi

,,Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir því að sjávarútvegurinn, eins og við þekkjum hann í dag, byggir ekki bara á því að draga fisk úr sjó, verka hann og koma í verð. Íslenskur sjávarútvegur er þekkingariðnaður á heimsmælikvarða. Það geta menn sannreynt með heimsókn á Íslensku sjávarútvegssýninguna sem haldin er þessa dagana í Kópavogi.“

Þetta segir Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda. Þótt félagið taki ekki þátt í sýningunni er mikil áhersla lögð á að þeir, sem eru starfsmenn hjá HB Granda, fari á sýninguna.

,,Stór hópur á okkar vegum fer á sýninguna. Hún er mikilvægur vettvangur til að hitta okkar helstu samstarfs- og þjónustuaðila, hvort sem um er að ræða skipasmíðastöðina, sem við erum í samstarfi við, tækjaframleiðandann, flutningsaðilann, tryggingarfélögin, olíufélögin eða þá sem stunda rannsóknir og nýsköpun á ýmsum vettvangi sjávarútvegsins,“ segir Brynjólfur.
Að þessu sinni er gestalisti HB Granda á Íslensku sjávarútvegssýningunni lengri en oftast áður.

,,Við fengum góða gesti að norðan í heimsókn til okkar í gær og ákváðum að bjóða þeim á sýninguna. Um er að ræða heimsókn á fjórða tug sjávarútvegsfræðinema frá Háskólanum á Akureyri. Auk almennrar kynningar á starfsemi HB Granda fórum við með þetta unga og bráðefnilega fólk í kynningarferð í fiskiðjuver okkar í Norðurgarði og í frystigeymsluna Ísbjörninn.“

Brynjólfur segir að hið fornkveðna að mennt sé máttur eigi ekki síst við um íslenskan sjávarútveg. Mikil áhersla hefur verið lögð á endurmenntun hjá starfsfólki í fiskvinnslunni og hefur það framtak m.a. skilað sér í bættum vinnubrögðum og launaflokkshækkunum.

,,Ég tók það saman í tilefni af komu nemendanna að norðan að hjá HB Granda starfa í dag einir tíu sjávarútvegsfræðingar og þar af er meirihutinn útskrifaður frá Háskólanum á Akureyri. Allir gegna mikilvægum hlutverkum hjá HB Granda í dag og allir eru þeir í stjórnunarstöðum. Við erum með sviðsstjóra, vinnslustjóra, útgerðarstjóra, gæðastjóra, sölustjóra og upplýsingatæknistjóra sem eiga það sameiginegt að hafa útskrifast sem sjávarútvegsfræðingar. Þetta eru verðmætir starfsmenn og við munum, sem fyrr, horfa til þess góða starfs sem unnið er á vegum Háskólans á Akureyri,“ segir Brynjólfur Eyjólfsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir