FréttirSkrá á póstlista

24.09.2014

Veiðum á norsk-íslensku síldinni að ljúka

Eitt uppsjávarveiðiskip HB Granda, Faxi RE, var enn að veiðum á norsk-íslenskri síld djúpt úti af Austfjörðum í gær. Lundey NS var þá á landleið eftir síðustu veiðiferð vertíðarinnar og Ingunn AK hefur lokið veiðum. Skipið kom til Vopnafjarðar á mánudag með um 900 tonna afla.

Að sögn Róberts Axelssonar, sem var skipstjóri í síðustu veiðiferð Ingunnar, fékkst ágætur afli djúpt austur af landinu um helgina.

,,Síldin er á hraðri austurleið og við fórum lengst vestur á 9°V en þaðan eru um 150 sjómílur til Vopnfjarðar. Það er síld grynnra en lóðningarnar eru veikari en þar sem við enduðum veiðiferðina,“ segir Róbert en þess má geta að þetta langt frá landi er botndýpið á milli 600 og 700 faðmar.

,,Síldin kemur upp þegar það fer að skyggja og veiðin er best á nóttunni. Síðan þegar birtir af degi dýpkar síldin aftur á sér. Við erum með tvö troll um borð og skiptum á að nota þau miðað við aðstæður. Á nóttunni vorum við að toga í yfirborðinu en yfir daginn þurftum við að fara með hitt trollið niður á allt að 120 faðma til að ná árangri,“ segir Róbert Axelsson.

Síldin, sem veiðst hefur undanfarna daga er stór og falleg, og meðalvigtin í sýnum um borð í Ingunni var um 400 grömm. Lítið var um aukaafla í veiðiferðinni en þó fékkst dálítið af kolmunna og örlítið af makríl með síldinni í fyrstu tveimur holunum.

Um helgina áttu skip HB Granda óveidd um 2.800 tonn af síldarkvótanum sem var um 8.500 tonn á vertíðinni. Með afla skipanna um helgina og nú í byrjun vikunnar þykir sýnt að kvótinn náist. Jafnframt er búið að veiða makrílkvóta ársins. Framundan eru svo veiðar á íslenskri sumargotssíld og er reiknað með að farið verði til þeirra veiða í byrjun októbermánaðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir