FréttirSkrá á póstlista

19.09.2014

Síldin hefur fært sig af grunnunum út í djúpin

,,Veiðiferðin byrjaði rólega og svo virðist sem að síldin sé að hverfa af grunnunum. Um leið og við færðum okkur út í djúpin fengum við hins vegar góða veiði og það var t.a.m. mjög góð veiði í nótt.“

Þetta sagði Stefán Geir Jónsson, sem var skipstjóri á Lundey NS í veiðiferðinni, við komuna til Vopnafjarðar í morgun. Hann ætlar að aflinn sé u.þ.b. 560 tonn og þar af eru um 100 tonn af makríl sem veiddist í fyrrinótt.

Stefán Geir og hans menn reyndu fyrst veiðar uppi á grunnunum fyrir austan þar sem ágæt síldveiði hefur verið að undanförnu. Þar var hins vegar lítið að sjá en hins vegar voru líflegar lóðningar frá Seyðisfjarðardjúpi og suður í Reyðarfjarðardjúp.

,,Við fórum um 15 mílur út fyrir kantinn austan við Gerpi og þar var töluvert að sjá í nótt. Það að síldin sé að dýpka á sér gæti bent til þess að hún sé að gera sig klára til að fara á hrygningarsvæðin við Noreg. Annars virðist vera nóg af síld djúpt úti fyrir öllu Norðurlandi. Skipstjóri á einu af grænlensku skipunum, sem eru á síldveiðum í grænlenskri lögsögu, sagði mér að þeir væru að fá síld á svæði norðan Halamiða og allt austur á 14°V. Það er beint norður af Langanesi. Þá veit ég til þess að mjög stór síld fékkst ánetjuð í rækjutroll norður í Skagafjarðardjúpi seint í sumar og allt þetta bendir til þess að útbreiðsla síldarstofnsins sé e.t.v. meiri en menn hafa almennt talið,“ sagði Stefán Geir Jónsson.

Nú er verið að landa úr Ingunni AK á Vopnafirði og lýkur því verki í kvöld. Þá kemur röðin að Lundey og ætti skipið að komast aftur til veiða seint annað kvöld eða aðra nótt. Faxi RE er að veiðum á Austfjarðamiðum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir