FréttirSkrá á póstlista

17.09.2014

Landað úr Ásbirni RE á Siglufirði

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú í höfn á Siglufirði þar sem aflanum úr síðustu veiðiferð var landað. Að sögn Friðleifs Einarssonar skipstjóra er þetta í fyrsta skipti, svo hann viti, að farið sé til Siglufjarðar með afla ísfisktogara HB Granda.

,,Þetta kom þannig til að við hófum veiðiferðina á Vestfjarðamiðum þar sem við reyndum við ufsa og karfa. Veiðin var hins vegar dræm og því var ákveðið að fara austur fyrir land. Þar fengum við ágætan afla eða um 100 tonn af hreinum þorski á rúmum tveimur sólarhringum. Við förum sennilega næst til veiða á Vestfjarðamiðum þess vegna var alveg eins gott að fara inn til Siglufjarðar með aflann. Það tekur skemmri tíma að aka honum þaðan til vinnslu á Akranesi en frá Ísafirði svo dæmi séu nefnd,“ segir Friðleifur en honum reiknast til að skipið hafi verið um þrjá sólarhringa að veiðum í túrnum en annar eins tími hafi farið í siglingar.

Áhöfnin á Ásbirni fór suður yfir heiðar eftir að skipið kom til hafnar á en Friðleifur segir að farið verði í næstu veiðiferð frá Siglufirði í kvöld. Nýhafið fiskveiðiár leggst ágætlega í skipstjórann en hann leynir því þó ekki að það hafi verið vonbrigði að ýsukvótinn hafi verið skorinn niður enn og aftur.

,,Við, líkt og fleiri, verðum bara að forðast ýsuna eins og heitan eld en það getur reynst snúið s.s. á ufsaveiðum,“ segir Friðleifur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir