FréttirSkrá á póstlista

10.09.2014

Síldin virðist vera á austurleið

Beinar veiðar á norsk-íslenskri síld hófust fyrir nokkru og hefur aflinn verið upp og ofan. Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa RE, er stundum lítið að hafa en ef menn hitta á góð lóð þá er aflinn undantekningarlaust góður.

Faxi er nú að veiðum tæpar 90 sjómílur vestur af Glettinganesi eða vel fyrir austan land og segir Albert það vera merkjanlegt að síldin sé á austurleið.

,,Á meðan við vorum á makrílveiðum þá lóðaði oft á síld í Héraðsflóadjúpi en lóðin, sem við fáum nú á útleið frá Vopnafirði og leiðinni til baka, eru ekki sterk og síldin hefur fært sig austur fyrir landið,“ segir Albert en að hans sögn var Faxi komin á miðin í gær. Sá dagur fór hins vegar fyrir lítið því trollið var óklárt og var dagurinn notaður til að koma því í lag.

,,Við toguðum svo í nótt sem leið og fengum ekki nema um 80 tonn. Svo hittum við á gott lóð fyrir hádegið og vorum að ljúka við að hífa. Ætli aflinn í þessu síðasta holi sé ekki um 180 tonn,“ segir Albert.
Það sem af er síldarvertíðinni hefur aflinn verið nokkuð blandaður með kolmunna og makríl.

,,Við viljum helst ekki fá kolmunna því hann veldur ákveðnum erfiðleikum við stærðarflokkun aflans í landi. Síldin er hins vegar fín og vel á sig komin og sá makríll sem við fáum er allur stór og vel haldinn,“ sagði Albert Sveinsson.

Nú er verið að landa úr Lundey NS á Vopnafirði og Ingunn AK er á leiðinni á miðin.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir