FréttirSkrá á póstlista

04.09.2014

Mjög góður þorskafli framan af veiðiferðinni

Þerney RE er nú að veiðum í rússneskri landhelgi í Barentshafi og að sögn Ægis Franzsonar, sem er skipstjóri í veiðiferðinni, var aflinn mjög góður til að byrja með en síðan datt botninn úr veiðinni. Síðustu dagar hafa farið í að leita að góðum þorsklóðningum en hafsvæðið, sem um ræðir, er ógnarstórt. Þrír rússneskir togarar og einn færeyskur hafa tekið þátt í leitinni auk Þerneyjar.

,,Við vorum komnir norður í ,,rússasjó“ 18. ágúst sl. og veiðin hófst degi síðar. Við vorum þá austur undir Novja Zemlja eyjunni og aflinn var mjög góður eða um eða yfir tvö tonn af stórum og góðum þorski á togtímann. Það hentar vinnslunni mjög vel. Aflabrögðin voru góð í um tíu daga en þá gerðist eitthvað og við höfum verið að fá um hálft tonn á togtímann í síðustu holum. Það var loðna á svæðinu á meðan aflinn hélst góður en síðan hvarf hún og um sama leyti datt botninn úr veiðinni,“ segir Ægir en er rætt var við hann fyrr í dag var Þerney stödd á svokölluðum Gæsabanka um 40 mílur vestan við Novaja Zemlja eða um 340 mílur norðvestur af Múrmansk.

Til að gefa smá hugmynd um ferðir Þerneyjar í veiðiferðinni nefnir Ægir að lengst hafi verið farið norður á 73°50´N og austur á 51°40A. Sé dregin lína beint í suður frá þeim stað þá er Persaflói vestan línunnar.

Að sögn Ægis er það mál manna að nú fari erfiðasti tíminn í hönd hvað veiði varðar í rússnesku lögsögunni. Aflinn hafi verið mjög góður í allt sumar og þannig hafi Kleifaberg ÓF verið að fara heim eftir mjög góðan túr um líkt leyti og Þerney kom á miðin. Snæfell EA er nú á leiðinni í rússnesku lögsöguna þannig að þar verða a.m.k. tvö íslensk skip að veiðum næstu vikurnar.

,,Og ekki er við veðrið að sakast. Hér hefur verið logn og blíða upp á hvern einasta dag frá því að við komum á miðin, utan hvað það var verulega napurt einn daginn en þá var norðanátt,“ segir Ægir en hann upplýsir að stefnt sé að því að Þerney fari inn til Kirkenes í Finnmerkurfylki í Norður-Noregi upp úr miðjum þessum mánuði vegna áhafnarskipta. Kristinn Gestsson skipstjóri og hans menn munu sjá um að ljúka veiðiferðinni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir