FréttirSkrá á póstlista

02.09.2014

Ágæt veiði áður en óveðrið skall á

,,Það er búin að vera ágæt veiði en eftir að óveðrið skall á sl. sunnudag hefur verið leiðindaveður á miðunum og það hefur gert mönnum erfitt fyrir. Við vorum komnir til Vopnafjarðar á laugardag og vorum í góðri veiði fyrir helgina,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, en er rætt var við hann var verið að ljúka við að landa úr skipinu á Vopnafirði.

,,Við vorum með um 560 tonna afla. Uppistaðan í aflanum var makríll eða um 480 til 500 tonn en við fengum einnig kolmunna og síld. Það er töluvert af dreifðum kolmunna á dýpinu út af grunnunum en við vorum að veiðum norður af Litladjúpi í veiðiferðinni,“ segir Guðlaugur.

Ekki var hægt að hefja löndun úr Ingunni fyrr en í gærmorgun þar sem komu flutningaskips, sem átti að ferma með frystum afurðum, seinkaði en Guðlaugur segir skipið hafi komið um helgina og útskipun hafi gengið vel. Auk Ingunnar er Lundey NS nú í höfn á Vopnafirði en Faxi RE er á veiðislóðinni út af SA-landi. Þar er enn bræla eftir að leifar fellibylsins gengu yfir landið sl. sunnudag.

Guðlaugur segist reikna með því að næst verði haldið til veiða á norsk-íslensku síldinni en fyrirmæli þar að lútandi höfðu ekki borist skipstjóranum er rætt var við hann.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir