FréttirSkrá á póstlista

01.09.2014

HB Grandi hefur samið um smíði þriggja ísfisktogara

Síðastliðinn föstudag, 29.8.2014, voru samningar um smíði þriggja nýrra ísfisktogara undirritaðir á skrifstofu HB Granda. Samningarnir hljóða upp á 43.950.000 EUR eða um 6,8 milljarðar króna samtals. Áætlað er að fyrsta skipið afhendist í maí 2016, það næsta síðla árs 2016 og það þriðja vorið 2017.

Nýju skipin munu leysa þrjá togara sem nú eru í rekstri, Ásbjörn RE, Otto N. Þorláksson RE og Sturlaug H. Böðvarsson AK, af hólmi. Með nýju skipunum eykst hagkvæmni í rekstri, þau munu eyða minni olíu, aflameðferð og nýting verður betri, rekstraröryggi eykst og viðhaldskostnaður mun lækka.

Það er skipasmíðastöðin Celiktrans Deniz Insaat Ltd. Sti., Tuzla, Tyrklandi sem mun annast smíði togaranna en fyrir er stöðin að smíða tvö uppsjávarskip fyrir HB Granda.

Hönnun skipanna er í höndum Nautic ehf., Lágmúla 5, Reykjavík.

Sjá einnig frétt á heimasíðu félagsins þann 24.6.2014 þar sem tilkynnt er að stjórn félagsins hafi ákveðið að ganga til samninga um smíði þriggja ísfisktogara.

Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var að lokinni undirskrift eru talið frá vinstri Torfi Þorsteinsson, deildarstjóri botnfisksviðs, Loftur B. Gíslason, útgerðarstjóri ísfisktogara, Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri, Alfreð Tulinius, Nautic ehf., Kristján Loftsson, stjórnarformaður, Ahmet Ötkür, stjórnarformaður Celiktrans, Volkan Urun, framkvæmdastjóri Celiktrans, Magnús Helgi Árnason, lögfræðingur og Jónas Guðbjörnsson, fjármálastjóri.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir