FréttirSkrá á póstlista

29.08.2014

Mjög góð ufsa- og karfaveiði á Vestfjarðamiðum

Nýtt kvótaár hefst eftir rúmlega tvo sólarhinga. Þeir, sem eiga kvóta enn óveiddan og vilja forðast að hann flytjist yfir á næsta kvótaár eða brenna inni, hafa verið iðnir við kolann það sem af er þessum mánuði.

Ævar Jóhannesson, er skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK í yfirstandandi veiðiferð, og hann segir aflabrögðin hafa verið góð.

,,Við fórum á Vestfjarðamið 1. ágúst sl. og hófum veiðar á Halamiðum. Þar fengum við mjög góða ufsaveiði. Síðan færðum við okkur yfir á Hornbankann og þar var ágæt ýsuveiði. Við fórum til Reykjavíkur í svokallaða millilöndun um miðjan mánuðinn og aflinn í þessum fyrri hluta túrsins var rúmlega 500 tonn af fiski upp úr sjó,“ segir Ævar en að löndun lokinni var aftur haldið norður á Vestfjarðamið.

,,Við höfum verið að veiðum í Víkurálnum og þar hefur verið mokveiði af gullkarfa síðustu vikuna. Við höfum reynt að halda okkur eins djúpt og mögulegt er en þar fáum við stærri og betri karfa en nær landi. Aflinn í þessum síðari hluta veiðiferðarinnar losar 500 tonn og uppistaða aflans er karfi.“

Að sögn Ævars eru nú aðeins Höfrungur III og Örfirisey RE að veiðum í Víkurálnum en tvö skip Samherja eru farin í land með afla, auk Barða NK.

,,Stefnan er sett á að vera í höfn í Reykjavík seint á laugardagkvöld. Kvótaárið rennur út á miðnætti nk. sunnudags og það er löndunin sem ræður því hvenær aflinn er skráður. Ekki afladagbækur viðkomandi skipa,“ sagði Ævar Jóhannesson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir