FréttirSkrá á póstlista

26.08.2014

Tregari makrílveiði síðustu daga

Makrílveiði hefur heldur tregast síðustu dagana eftir mjög góða veiði í sumar. Að sögn Hjalta Einarssonar, sem er skipstjóri á Faxa RE í veiðiferðinni, á makríllinn það til að hverfa niður undir botn stóran hluta dagsins og er fyrir vikið vandveiddari.

,,Eins og ástandið er núna þá er þetta meiri hittingur og við erum núna á siglingu í leit að makríl í veiðanlegu magni. Við hófum veiðar á sunnudag og erum komnir með um 300 tonna afla. Það vantar því um 100 tonn upp á að við náum skammtinum fyrir vinnsluna en vonandi gengur það upp á þeim tíma sem við höfum í dag og fram á kvöldið. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við verðum að vera komnir í höfn á Vopnafirði snemma á þriðjudagsmorgni,“ sagði Hjalti en er rætt var við hann í gær var Faxi suður af Hvalbak. Ingunn AK var þá nýkomin á miðin en verið var að landa úr Lundey NS á Vopnafirði.

Í lok síðustu viku voru óveidd um 4.000 tonn af makrílkvóta uppsjávarskipa HB Granda og það styttist því í að beinar síldveiðar hefjist. Hjalti á von á því að þær veiðar muni ganga vel. Vart hafi orðið við síld víða úti fyrir Austfjörðum frá Héraðsflóadjúpi og suður um og í gær hafi a.m.k. eitt skip verið að síldveiðum í Reyðarfjarðardjúpi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir