FréttirSkrá á póstlista

26.08.2014

HB Grandi hlaut fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar

Í gær voru veittar fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 við hátíðlega athöfn í Höfða. Það var Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sem veitti verðlaun fyrir fegurstu lóðir fjölbýlishúsa og fyrirtækja, fallegrar útiaðstöðu við sumargötur og endurbóta á eldri húsum í Reykjavík. Meðal þeirra, sem hlutu verðlaunin að þessu sinni, var HB Grandi fyrir endurbætur á gamla síldarverksmiðjuhúsinu að Grandagarði 20 og veitti Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri félagsins, þeim viðtöku.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að húsið sem um ræðir hafi verið byggt árið 1950 sem síldarbræðslu- og úrvinnsluhús fyrir síldarverksmiðju sameignarfélagsins Faxa sem stofnað var af Reykjavíkurbæ og hlutafélaginu Kveldúlfi árið 1948. Húsið teiknuðu arkitektarnir Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson. Það er fjórlyft með mjórri þakhæð eftir miðjuási, byggt úr járnbentri steinsteypu og slétthúðað að utan. Í því voru upphaflega vélasalir á öllum hæðum, auk efnarannsóknarstofu á 1. hæð og geymslurýmis á þakhæð.

Verksmiðjan var reist á þeim tíma þegar Suðurlandssíldin hafði gengið inn í Kollafjörð og Hvalfjörð og miklar vonir voru bundnar við áframhaldandi síldargöngu. Verksmiðju félagsins var valinn staður á uppfyllingu nyrst við Grandagarð, sem þá þjónaði enn sem hafnargarður sem tengdi Örfirisey við land. Verksmiðjan var hin fyrsta hér á landi þar sem beitt var þurrvinnslu sem var ný síldarvinnsluaðferð á þessum tíma og átti að koma í veg fyrir allan óþrifnað og óþef. Miklar byggingar voru reistar undir starfsemi verksmiðjunnar, en auk fjórlyfta verksmiðjuhússins var byggt gríðarstórt þurrsíldarhús á lóðinni sem brann árið 1964, ketilhús sem enn stendur í suðvesturhorni lóðarinnar og dæluhús, auk síldarþróa og lýsis- og olíugeyma. Seinna bættust við fleiri hús og mjöltankar á lóðinni. Í dag eru hús verksmiðjunnar í eigu HB Granda.

Fram kemur að hið fjórlyfta síldarverksmiðjuhús hafi verið áberandi kennileiti við Reykjavíkurhöfn á sínum tíma. Það var byggt sem sérhæft verksmiðjuhús og sé gott dæmi um iðnaðararkitektúr frá 5. og 6. áratug 20. aldar. Nú þegar yngri mannvirki hafa verið fjarlægð og gerðar hafa verið gagngerar endurbætur á húsinu, þar sem gluggar hafa m.a. verið færðir í upphaflegt horf, njóti húsið sín mun betur í umhverfi sínu og hafi öðlast aftur þann sess sem það hafði áður sem sýnilegur og mikilvægur hluti af umgjörð hafnarinnar.

,,Hönnuðir endurbóta eru ASK arkitektar. ÍAV önnuðust verkið. Framtak eigenda hússins er einkar lofsvert og mikilvægt fordæmi fyrir eigendur eldra iðnaðarhúsnæðis sem hefur gildi fyrir byggingarlistasögu og atvinnusögu Reykjavíkur,“ segir ennfremur í umsögn Drífu Kristínar Þrastardóttur, safnvarðar á Borgarsögusafni Reykjavíkur og Margrétar Þormar, arkitekts hjá skipulagsfulltrúa, en þær skipuðu vinnuhópinn sem fjallaði um endurbætur á eldri húsum.

Á myndinni eru: Dagur B. Eggertssyni borgarstjóri, Hjálmar Sveinsson formaður skipulagsnefndar, Sigurður Gunnarsson, tæknistjóri, Rafn Haraldsson, umsjónarmaður útisvæðis, Helgi Már Halldórsson frá ASK arkitektum, Guðmundur Konráðsson frá ÍAV og Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir