FréttirSkrá á póstlista

20.08.2014

Hafa veitt rúmlega 2.000 tonn af makríl í sumar

,,Það er ekki hægt að kvarta yfir aflabrögðunum og við veiðum eins og frystigetan leyfir eða um 52 til 53 tonn á sólarhring. Makríllinn er greinilega vel haldinn, hefur nóg af æti og fituprósentan er komin yfir 30% samkvæmt nýjustu mælingum.“

Þetta sagði Trausti Egilsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE, er tal náðist af honum fyrr í dag. Trausti var þá með skipið að veiðum í Kolluálnum vestur af Snæfellsnesi.

Örfirisey fór til veiða í byrjun mánaðarins og er rætt var við Trausta var búið að landa tvisvar, alls um 700 tonnum, en sá háttur er hafður á varðandi makrílveiðarnar að reynt er að landa aflanum vikulega. Lengd veiðiferðarinnar, þrátt fyrir millilandanir, er þó hefðbundin og áætlað er að henni ljúki um næstu mánaðamót.

Að sögn Trausta nemur makrílafli Örfiriseyjar í sumar rúmlega 2.000 tonnum. Notað er flottroll af gerðinni Gloría 1260 frá Hampiðjunni við veiðarnar og aflinn er allur heilfrystur um borð.

,,Það er ekki annað að sjá en að makríllinn sé hér í góðu yfirlæti og að hann hafi nóg að éta. Við flokkum aflann í mismunandi stærðarflokka en upp á síðkastið hefur makríllinn í auknum mæli farið í flokkinn 400 til 600 grömm. Svo virðist sem að ljósáta sé uppistaðan í fæðu þessa fisks og við höfum ekki orðið varir við að hann sé að éta seiði í miklum mæli,“ sagði Trausti Egilsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir